Hafa samband

Starfsmenn SGS í heimsókn hjá aðildarfélögum

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn SGS, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri og Árni Steinar Stefánsson sérfræðingur, sótt nokkur af aðildarfélögum sambandsins heim. Heimsóknirnar hafa undantekningalaust verið góðar og gagnlegar og til þess fallnar að efla samskipti milli skrifstofunnar og félaganna.

Félögin sem hafa nú þegar verið heimnsótt eru Báran á Selfossi, Eining-Iðja á Akureyri, Framsýn á Húsavík, Stéttarfélag Vesturlands í Borgarbyggð, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði. Starfsmenn SGS áforma fleiri heimsóknir á næstu vikum.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá heimsóknunum.


Fyrsti vinnufundur starfsmatsnefndar SAMSTARFS

Fyrsti vinnufundur starfsmatsnefndar SAMSTARFS var haldinn í húsakynnum BSRB í gær, en nefndin hefur m.a. það hlutverk að skoða sameiginlega hvernig til hefur tekist með innleiðingu og framkvæmd starfsmatskerfisins SAMSTARF og með hvaða hætti megi tryggja áframhaldandi þróun þess. Í nefndinni sitja fulltrúar frá aðildarfélögum BSRB, SGS og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Á fundinum kynntu starfsmatsráðgjafar starfsmatskerfið fyrir gestum, fulltrúar frá Starfsmennt og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins mættu og kynntu sína starfsemi auk þess sem talsverður tími fór í umræður og hópavinnu. Fulltrúar SGS á fundinum í gær voru þau Signý Jóhannesdóttir, Björn Snæbjörnsson, Linda Baldursdóttir, Drífa Snædal og Árni Steinar Stefánsson. Áætlað er að næsti fundur í nefndinni verði haldinn 30. nóvember n.k.

Hægt er að lesa nánar um starfsmatskerfið SAMSTARF á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.


Starfsmenn SGS á Norðurlandi

Í lok vikunnar sækja tveir nýráðnir starfsmenn Starfsgreinasambandsins Norðurland heim, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri og Árni Steinar Stefánsson sérfræðingur. Á fimmtudag verður Eining-Iðja á Akureyri heimsótt og um kvöldið verða Drífa og Árni gestir á stjórnar- og trúnaðarmannaráðsfundi Framsýnar á Húsavík. Föstudaginn 28. september heimsækja þau svo Verkalýðsfélags Þórshafnar. Fundirnir eru liður í því að kynna nýtt starfsfólk til leiks og eru áætlaðar fleiri heimsóknir til aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins á næstu vikum.


Nýr vefur SGS í loftið

Vefur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hefur nú verið opnaður í nýrri og endurbættri mynd. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á vefnum sem miða að því að  bæta þjónustu við alla þá sem eiga erindi við SGS. Lögð er áhersla á að upplýsingar á nýjum vef séu sem aðgengilegastar og settar fram á greinargóðan hátt. Á vefnum má m.a. nálgast ýtarlegar upplýsingar um erlend systursamtök SGS, umsagnir og ályktanir sambandsins, gögn frá þingum og ársfundum sem og gagnlegar upplýsingar um kjara-, og fræðslumál og réttindi launafólks.

Gerð vefsins var í höndum Nepal ehf. sem sá um forritun og grafíska hönnun ásamt því að vera vistunaraðili vefsins. Allar ábendingar og athugasemdir varðandi vefinn eru vel þegnar og skulu sendar á netfangið arni@sgs.is.


Fyrirlestur um lagaumhverfi heimilisstarfa á Íslandi

Starfsgreinasambandið vekur athygli á að á morgun, föstudaginn 13. september, mun nýráðinn framkvæmdastjóri SGS, Drífa Snædal, flytja fyrirlestur um lagaumhverfi heimilisstarfa á Íslandi. Um er að ræða fyrirlestur sem byggir á meistararitgerð Drífu, en hún lauk nýverið MA-námi í vinnumarkaðsfræði frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

 

Fyrirlesturinn sem ber heitið „Þegar heimili eins er vinnustaður annarra. Lagaumhverfi heimilisstarfa á Íslandi“ verður haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00 og eru allir velkomnir.

Auglýsing RIKK


Þing NU-HRCT

Þing NU-HRCT (Samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum) stendur nú yfir í Þrándheimi í Noregi. Þingið, sem er haldið á fjögurra ára fresti, hófst í gær og lýkur á morgun. Á þinginu sitja fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum en SGS á þar þrjá fulltrúa; Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, Kristján Bragason, framkvæmdastjóri SGS og Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður VerkVest, En Finnbogi á einnig sæti í stjórn NU-HRCT. MATVÍS sendi jafnframt tvo fulltrúa á þingið fyrir sína hönd.

Málefni ferðaþjónustunnar hafa verið talsvert til umræðu á þinginu, m.a. tækifæri og ógnanir í greininni og hvernig er hægt að skapa vöxt í ferðaþjónustunni en um leið tryggja góð og vel launuð störf.

NU-HRCT hafa alls 115.000 félagsmenn innan sinna raða en sjö landssambönd frá fimm löndum eiga aðild að samtökunum.

 


Stofnanasamningur við Skógræktina

Starfsgreinasambandið og Skógrækt ríkisins hafa gert með sér stofnanasamning um forsendur og reglur um röðun starfa við stofnunina, í samræmi við ákvæði kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, frá 1. júní 2011. Samningurinn nær til allra starfsmanna hjá Skógrækt ríkisins sem starfa og njóta ráðningarkjara samkvæmt kjarasamningi SGS.

Nálgast má samninginn hér.


Kaup og kjör í landbúnaði

Í september 2011 undirrituðu Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands sér kjarasamning sem gildir 1. júní 2011 til 31. janúar 2014. SGS vill benda á að umræddur kjarasamningur hefur lagalegt gildi varðandi lágmarkslaun í þeim störfum sem samningurinn fjallar um og á það einnig við um þá sem ekki eiga aðild að stéttarfélagi. Jafnframt skal bent á að lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda gilda um störf í landbúnaði sem og önnur sem samið hefur verið um.

Í gær birti Stéttarfélag Vesturlands frétt á heimasíðu sinni þar sem félagið bendir m.a. á nokkur atriði sem starfsmenn sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum hafa ber í huga varðandi sín kaup og kjör:

  • Samningurinn milli SGS og Bændasamtakanna gildir einnig fyrir ungmenni frá 14 ára aldri.
  • Samningurinn gildir fyrir 40 stunda vinnuviku, virkar 37 klukkustundir og 5 mín. Vinna umfram það skal greidd með yfirvinnu.
  • Semja má um rofinn dagvinnutíma milli 07:00 og 19:00 þó aldrei meira er virkar 7 klst. og 25. mín á dag og þess skal getið í ráðningarsamningi ef þannig er samið.
  • Starfsmaður á rétt á 8 frídögum á mánuði og atvinnurekanda er skylt að veita 4 frídaga.
  • Skýr ákvæði eru um aðbúnað ef búið er á staðnum.
  • Tölur vegna fæðis og húsnæðis er hámark, semja má um lægri greiðslu.
  • Þó að samið sé um hærri grunnlaun en getið er í kjarasamningum gilda önnur ákvæði samningsins óbreytt.
  • Ef unnið er umfram átta stunda vinnudag 5 daga vikunnar er ráðlegt að skrifa hjá sér vinnutímann og æskilegt er að starfsmaðurinn og launagreiðandinn komi sér saman um hvernig sú tímaskrift fer fram.

 

 Frétt Stéttarfélags Vesturlands frá 8. ágúst

 Lög nr. 55 frá 1980


Fjölmargar umsóknir um starf framkvæmdastjóra

Starfsgreinasambandinu bárust 33 umsóknir um starf framkvæmdastjóra, en umsóknarfrestur rann út á miðnætti þann 6. ágúst. Á næstu vikum verður farið yfir umsóknirnar og rætt við mögulega kandidata. Ætlunin er að ráðningarferlinu verði lokið fyrir lok þessa mánaðar og vonandi verður hægt að tilkynna um nafn á nýjum framkvæmdastjóra í byrjun september.


Auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra

Starfsgreinasamband Íslands leitar eftir nýjum framkvæmdastjóra. Núverandi framkvæmdastjóri, Kristján Bragason, tók starfið að sér tímabundið með það að markmiði að endurskipuleggja starfsemi og rekstur SGS. Nú þegar þeirri vinnu er lokið og þing SGS hefur samþykkt ný lög og reglugerðir varðandi starfsemina, sem og nýja starfs- og fjárhagsáætlun til næstu tveggja ára er kominn tími til að leita að nýjum einstaklingi til að stýra sambandinu.

Starf framkvæmdastjóra SGS er mjög fjölbreytt, en hann ber m.a. ábyrgð á rekstri og stjórnun sambandsins í samvinnu við formann. Hann vinnur að stefnumótun fyrir sambandið og framfylgir ákvörðunum teknum af þingum, formannafundum og framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjóri er í miklum samskiptum við innlenda og erlenda aðila um margvísleg málefni er tengjast hagsmunum launafólks.

 

Starfsgreinasambandið leitar af háskólamenntuðum einstaklingi sem hefur reynslu og þekkingu á málefnum stéttarfélaga. Mikilvægt er að viðkomandi hafi mikla hæfni í mannlegum samskiptum, sem og hæfni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti. Þá er gerð krafa um góða tungumálakunnáttu.

Hagvangur sér um ráðninguna og er umsóknarfrestur fram til 6. ágúst nk.  Auglýsinguna má sjá hér  


Síða 3 Af 6Fyrst...234...Síðast