Hafa samband

Gleðilegt ár!

Starfsgreinasamband Íslands óskar landsmönnum nær og fjær gleðilegs og gæfuríks komandi árs og þakkar fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.


Kjarasamningar undirritaðir

Skrifað var undir kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði í kvöld. Helstu atriði samningsins er snúa að félögum í Starfsgreinasambandinu er 8.000 króna launahækkun auk tilfærslu um einn launaflokk og 2,8% hækkun á alla almenna liði kjarasamningsins. Auk þess hækkar lágmarkstekjutrygging eftir fjögurra mánaða starf úr 204.000 í 214.000 krónur. Desember- og orlofsuppbætur hækka einnig hlutfallslega. Flest félög innan SGS undirrituðu samningana í kvöld en við tekur kynningarferli og atkvæðagreiðsla meðal allra félagsmanna. Niðurstaða á að liggja fyrir ekki síðar en 22. janúar næstkomandi þannig að aðildarfélög SGS fara að undirbúa atkvæðagreiðslur strax í upphafi nýs árs.


Jólakveðja SGS

Starfsgreinasamband Íslands sendir öllum landsmönnum bestu óskir um gleðirík og yndisleg jól. Með von um farsæla kjarabaráttu og samstöðu á nýju ári.

Vakin er athygli á að skrifstofa SGS verður lokuð milli jóla og nýárs, en hægt er að hafa samband við starfsfólk SGS í gegnum tölvupóst (sgs@sgs.is).


Laun um jólin

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki álag á stórhátíðardögum, en þeir jóladagar sem eru stórhátíðardagar teljast:

  • aðfangadagur eftir kl. 12:00,
  • jóladagur,
  • gamlársdagur eftir kl. 12:00 og
  • nýársdagur

Annar í jólum telst auk þess almennur frídagur. Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Í vaktavinnu skal greiða 55% vaktaálag á sérstökum frídögum en 90% vaktaálag á stórhátíðardögum samkvæmt samningi við ríki og sveitarfélög.

 


Fræðsla fyrir ungt fólk

Félagsmálaskóli alþýðu (FMA) hefur tekið saman kynningarefni sem er sérstaklega ætlað ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum. Kynningin er sett fram á myndrænan og líflegan hátt með aðstoð nýjustu tækni. FMA hefur á undanförnum vikum farið með umrædda kynningu í nokkra af framhaldsskólum landsins þar sem hún hefur hún vakið mikla lukku meðal nemenda. Í kynningunni er m.a. fjallað um helstu réttindi og skyldur launafólks, skyldur atvinnurekenda gagnvart starfsfólki, ráðningarsamninga og launaseðla.


Fjármálaráðherra neitar atvinnulausu fólki um desemberuppbót

Niðurskurðarhnífurinn fer víða í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og bitnar hart á lágt launuðu fólki á vinnumarkaðnum. Skuldaniðurfellingarúrræðin koma tekjuhærri betur en tekjulægri hópunum, skattatillögurnar sömuleiðis svo ekki sé rætt um hækkanir á gjaldskrám sem bitna hlutfallslega meira á tekjulægri hópunum á vinnumarkaði. Þegar kemur að atvinnulausu fólki tekur steininn úr. Skorið er niður til verkefna og þjónustu við atvinnulausa, starfsendurhæfingin er skert gríðarlega og samningum um félagsleg úrræði rift. Aumasta útspilið er þó að neita atvinnulausu fólki um desemberuppbót í aðdraganda jólanna. Það er ein af undirstöðum velferðarkerfisins að tryggja lágmarksframfærslu fólks sem dettur út af vinnumarkaði og að fólk í þeirri stöðu njóti réttinda. Desemberuppbótin er ekki há en getur skipt sköpum fyrir fólk í jólamánuðinum. Starfsgreinasamband Íslands vísar ábyrgðinni á fjármálaráherra og krefst þess að úr þessu verði bætt strax.


Pattstaða í kjaraviðræðum að mati forseta ASÍ

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ lýsir stöðunni í kjaraviðræðunum við SA sem ákveðinni pattstöðu. Brugðið geti til beggja átta – aðilar gætu náð saman en svo gæti líka farið að deilurnar harðni enn frekar og það komi til átaka á vinnumarkaði á næstunni. Gylfi fer yfir stöðuna í kjaraviðræðunum í nýjasta innslagi netsjónvarps ASÍ.


Yfirlýsing samninganefndar SGS

Í kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem lögð var fyrir Samtök Atvinnulífsins í byrjun nóvember var lögð áhersla á hækkun lægstu launa. Lögð var til blönduð leið prósentu og krónutöluhækkana til að koma í veg fyrir það ranglæti að lægst launaða fólkið fengi minnst og það hæst launaða mest. Lagt var til að við lægstu taxtana bættust 20.000 krónur og þykir mörgum það vera hógvær krafa. Samtök atvinnulífsins hafnaði kröfunum samstundis.


SA hafnar hækkun lægstu launa – viðræðum slitið

Tilkynning frá samninganefnd ASÍ:

Samninganefnd ASÍ hefur á undanförnum vikum unnið að því að leggja grunn að aðfarasamningi við Samtök atvinnulífsins, þar sem þess yrði freistað að ná auknum kaupmætti, tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og lágri verðbólgu. Ágætur árangur hefur náðst um umgjörð slíks samnins. Í dag kom hins vegar í ljós djúpstæður ágreiningur við SA um launalið væntanlegs samnings, sérstaklega það sem snýr að hækkun lægstu launa. Svo langt er á milli aðila að samninganefnd ASÍ telur forsendur brostnar fyrir þeirri leið sem átti að varða. SA hafnar þeirri kröfu ASÍ að hækka lægstu laun um ákveðna krónutölu. Því hefur samninganefnd ASÍ tilkynnt SA að viðræðum á þessum grunni sé hætt. Framhald viðræðna um gerð nýrra kjarasamninga er á höndum aðildarsamtaka ASÍ.

 


Yfirlýsing frá samningaráði Starfsgreinasambands Íslands

Í tilefni þeirra skrifa sem koma fram á vefsíðu Verkalýðsfélags Akraness vill samningaráð Starfsgreinasambandsins koma eftirfarandi á framfæri:

Nú standa yfir kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði enda runnu gildandi kjarasamningar út um síðustu mánaðarmót. Mikil og þétt vinna fer fram í samninganefndum stéttarfélaga, landssambanda og á vettvangi ASÍ. Í þeirri vinnu er velt upp ýmsum möguleikum, margar tölur eru notaðar til viðmiðunar við útreikninga og alls konar sviðsmyndir kynntar. Á fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands í vikunni voru settar fram tölur til viðmiðunar í reiknilíkön. Þessar tölur voru ekki ætlaðar til opinberrar birtingar enda er ekki byrjað að semja um krónur eða prósentur við Samtök atvinnulífsins. Það skýtur því skökku við að upplýsingar sem enn eru til umræðu sem trúnaðarmál inn í samninganefnd SGS skuli vera komnar inn á vef Verkalýðsfélags Akraness. Þær hafa ekki verið samþykktar af samninganefnd SGS né á vettvangi samninganefndar ASÍ.


Síða 1 Af 9123...Síðast