Hafa samband

Krafan er hækkun lægstu launa

Á þingi Starfsgreinasambands Íslands í síðustu viku kom fram skýr krafa um hækkun lægstu launa. Ljóst er að hækkun lægstu launa hefur borið góðan árangur í undangengnum kjarasamningum. Það hefur orðið til þess að minnka bilið milli þeirra launahæstu og launalægstu. Þar að auki eru að stórum hluta til konur sem sinna lægst launuðu störfunum og því verður það til að minnka launamun kynjanna að hækka lægstu launin. Þá ályktaði þingið einnig um nauðsyn þess að láta nám endurspeglast betur í launum, en fjöldi almenns verkafólks sækir styttri námsleiðir sem gerir það hæfara í sínum störfum.


Umsögn SGS um forsendur fjárlagafrumvarpsins

Starfsgreinasamband Íslands hefur sent inn umsögn um um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Sambandið harmar það að ekki var haft samráð við aðila vinnumarkaðarins við undirbúning fjárlaga þrátt fyrir yfirlýsingar í stjórnarsáttmálanum um samráð í meðal annars skattamálum, enda sé ljóst að margar breytingar sem áætlaðar eru í ríkisfjármálum muni hafa bein áhrif á kaupmátt launafólks. SGS leggur m.a. áherslu á að viðhalda þrepaskiptu skattkerfi og boðaðar skattalækkanir verði nýttar til að mæta þörfum þeirra sem hafa lægstar tekjur, t.d. með því að hækka persónuafslátt.


Hlutastörf kvenna og karla

Færri konur vinna hlutastörf á Íslandi en í flestum öðrum Norðurlöndunum (að Finnlandi undanskildu) en enginn þó eins lítið og íslenskir karlar, þeir eru langflestir í fullum störfum. Það er ljóst að hlutastörf eru töluvert algengari á hinum Norðurlöndunum og miklu algengari alls staðar meðal kvenna en karla. Flestar konur segja ástæðu þess að þær vinna hlutastörf vera vegna fjölskylduaðstæðna og af því þær fá ekki fullt starf. Engir karlar á Íslandi virðast vinna hlutastörf vegna fjölskylduaðstæðna heldur frekar af því þeir fá ekki fullt starf eða eru í námi með störfum.


SGS opnar nýjan vef

Nýr og endurbættur vefur Starfsgreinasambands Íslands var settur í loftið á þingi sambandsins sem lauk sl. föstudag. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á vefnum sem miða að því að  bæta þjónustu við alla þá sem eiga erindi við SGS. Lögð er áhersla á stílhreint útlit, einfalda uppbyggingu og síðast en ekki síst að upplýsingar á nýjum vef séu sem aðgengilegastar og settar fram á greinargóðan hátt. Á vefnum má m.a. nálgast ýtarlegar upplýsingar um erlend systursamtök SGS, umsagnir og ályktanir sambandsins, gögn frá þingum og ársfundum sem og gagnlegar upplýsingar um kjara-, og fræðslumál og réttindi launafólks. Ýmsar aðrar nýjungar munu bætast við á næstu vikum.


Vel heppnuðu þingi SGS lokið

4. þingi Starfsgreinasambands Íslands lauk rétt eftir hádegi í dag á Akureyri. Samþykktar voru fjórar ályktanir; um atvinnumál, húsnæðismál, kjaramál og ríkisfjármál. Að auki var starfsáætlun til tveggja ára samþykkt og fræðslustefna Starfsgreinasambands Íslands. Björn Snæbjörnsson (Eining-Iðja) var endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Afl starfsgreinafélag) var sömuleiðis endurkjörinn varaformaður.


Mikilvægt að ná tökum á genginu

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, flutti erindi á 4. þingi SGS sem fram fer á Akureyri. Ólafur Darri fjallaði m.a. um þróun og horfur í kjaramálum, launaþróun á liðnum árum og vanda landsins í gengis- og verðlagsmálum. Hann sagði að það væri dauft yfir efnahagslífinu og að ekki væri mikilla breytinga að vænta og að óstöðugleika í gengi gerði landinu erfitt fyrir.


Forseti ASÍ hvetur til samstöðu meðal launafólks

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ kom víða við í ræðu sinni á 4. Þingi SGS sem haldið er á Akureyri dagana 16.-18. október.  Honum var þó tíðrætt um undirbúning kjarasamningana og það megin stef sem aðildarsambönd ASÍ virtust vera sammála um. Verkalýðshreyfingin vill stutta kjarasamninga, stöðugt verðlag og aukinn kaupmátt. Þá virðast allir vilja leiðrétta ákveðna hópa umfram aðra.


Ráðherra tekur undir áhyggjur SGS

Eygló Harðardóttir húsnæðis- og félagsmálaráðherra ávarpaði  4. þing Starfsgreinsambands Íslands við setningu þess í dag.

Ráðherra sagði góð teikn vera á lofti um að vinnumarkaðurinn væri að braggast og atvinnuleysi að minnka en hins vegar væru stór verkefni eftir: „Stóra verkefnið nú er að byggja upp öflugan, sjálfbæran vinnumarkað með fjölbreyttum og eftirsóknarverðum störfum við allra hæfi. Til þess þurfum við að móta okkur framtíðarsýn í atvinnumálum á breiðum grundvelli og til þess þurfum við víðtækt samráð og samstarf.“


Þing SGS sett – ræða formanns

Komandi kjarasamningar voru Birni Snæbjörnssyni formanni Starfsgreinasambandsins hugleiknir í setningarræðu hans á 4. þingi SGS sem hófst í dag á Akureyri. Í ræðu sinni sagði hann m.a. ” Samstaða og samvinna er einnig hornsteinn Starfsgreinasambandsins, sem er og á að vera, vettvangur sameiginlegrar kjarabaráttu, samtök með meira afli en einstök félög geta haft, til að mynda þann slagkraft sem nauðsynlegur er í baráttu við atvinnurekendur og ríkisvald. “


4. þing Starfsgreinasambands Íslands

4. þing Starfsgreinasambands Íslands verður sett í Hofi á Akureyri þann 16. október 2013 klukkan 15:00 undir yfirskriftinni Samstaða og Samvinna. Þingið mun fjalla um kjaramál í aðdraganda kjarasamninga, atvinnumál almennt, húsnæðismál og fleira. Þegar formaður Starfsgreinasambandsins, Björn Snæbjörnsson hefur sett þingið munu þau Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ flytja ávörp.


Síða 1 Af 212