Hafa samband

Í tilefni umræðu um kjarasamninga

Mikil umræða hefur farið fram í fjölmiðlum og víðar um nýgerða kjarasamninga sem félagsmenn okkar eru þessa dagana að greiða atkvæði um.

Umræða um kjaramál er góð en þó þarf að gæta sanngirni og að fólk geti treyst því að rétt sé farið með. Rétt er að koma því á framfæri að mikil og góð samstaða var innan samninganefndar SGS þegar kröfugerð sambandsins var mótuð. Krafan var að hækka lægstu taxta um 20.000 krónur og önnur laun tækju 7% hækkun.


Verum á verði gagnvart verðhækkunum

Í kjarasamningunum sem undirritaðir voru 21. desember sl. sammæltust atvinnurekendur og launafólk um aðgerðir til að styðja við markmið um aukin kaupmátt, minni verðbólgu og lækkun verðbólguvæntinga í efnahagslífinu. Meðal þeirra er að fyrirtæki og stjórnvöld gæti ýtrasta aðhalds í verðákvörðunum sínum. Um þessar áherslur var samstaða meðal samningaaðila og stjórnvöld tóku undir mikilvægi þeirra.


Kaldar kveðjur frá ríkinu til launafólks

Blekið er ekki þornað af nýgerðum kjarasamningum þegar stjórnvöld senda kaldar kveðjur til launafólks í formi gjaldskrárhækkana. Komugjöld á heilsugæslustöðvar hækkuðu um 15-20% þann 1. janúar síðastliðinn. Rétt fyrir jól var undirritaður kjarasamningur með hógværum launahækkunum en með þeim samningi fylgdi ásetningur um að halda aftur af hækkunum hjá fyrirtækjum og í opinberum gjaldskrám.


Kynningarefni vegna kjarasamninga

Starfsgreinasambandið hefur útbúið kynningarefni vegna kjarasamninganna sem undirritaðir voru 21. desember síðastliðinn. Hér að neðan má nálgast ýtarlegar upplýsingar um samningnana á íslensku sem og upplýsingar á ensku og pólsku.


Nýtt ár og breytt laun

Starfsgreinasamband Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegs árs með þökkum fyrir samfylgdina á liðnu ári. Rétt fyrir jól undirritaði samninganefnd SGS nýja kjarasamninga sem gilda til eins árs. Nú tekur við ferli atkvæðagreiðslu hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins og skal því lokið þann 22. janúar næstkomandi. Samningar taka gildi við undirritun og gilda áfram nema þeir séu felldir í atkvæðagreiðslu. Í meðfylgjandi skjali má sjá nýja kauptaxta, hækkun desember- og orlofsuppbótar, almenna hækkun og svo framvegis.


Kjarasamningar undirritaðir

Skrifað var undir kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði í kvöld. Helstu atriði samningsins er snúa að félögum í Starfsgreinasambandinu er 8.000 króna launahækkun auk tilfærslu um einn launaflokk og 2,8% hækkun á alla almenna liði kjarasamningsins. Auk þess hækkar lágmarkstekjutrygging eftir fjögurra mánaða starf úr 204.000 í 214.000 krónur. Desember- og orlofsuppbætur hækka einnig hlutfallslega. Flest félög innan SGS undirrituðu samningana í kvöld en við tekur kynningarferli og atkvæðagreiðsla meðal allra félagsmanna. Niðurstaða á að liggja fyrir ekki síðar en 22. janúar næstkomandi þannig að aðildarfélög SGS fara að undirbúa atkvæðagreiðslur strax í upphafi nýs árs.


Jólakveðja SGS

Starfsgreinasamband Íslands sendir öllum landsmönnum bestu óskir um gleðirík og yndisleg jól. Með von um farsæla kjarabaráttu og samstöðu á nýju ári.

Vakin er athygli á að skrifstofa SGS verður lokuð milli jóla og nýárs, en hægt er að hafa samband við starfsfólk SGS í gegnum tölvupóst (sgs@sgs.is).


Laun um jólin

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki álag á stórhátíðardögum, en þeir jóladagar sem eru stórhátíðardagar teljast:

  • aðfangadagur eftir kl. 12:00,
  • jóladagur,
  • gamlársdagur eftir kl. 12:00 og
  • nýársdagur

Annar í jólum telst auk þess almennur frídagur. Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Í vaktavinnu skal greiða 55% vaktaálag á sérstökum frídögum en 90% vaktaálag á stórhátíðardögum samkvæmt samningi við ríki og sveitarfélög.

 


Fræðsla fyrir ungt fólk

Félagsmálaskóli alþýðu (FMA) hefur tekið saman kynningarefni sem er sérstaklega ætlað ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum. Kynningin er sett fram á myndrænan og líflegan hátt með aðstoð nýjustu tækni. FMA hefur á undanförnum vikum farið með umrædda kynningu í nokkra af framhaldsskólum landsins þar sem hún hefur hún vakið mikla lukku meðal nemenda. Í kynningunni er m.a. fjallað um helstu réttindi og skyldur launafólks, skyldur atvinnurekenda gagnvart starfsfólki, ráðningarsamninga og launaseðla.


Fjármálaráðherra neitar atvinnulausu fólki um desemberuppbót

Niðurskurðarhnífurinn fer víða í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og bitnar hart á lágt launuðu fólki á vinnumarkaðnum. Skuldaniðurfellingarúrræðin koma tekjuhærri betur en tekjulægri hópunum, skattatillögurnar sömuleiðis svo ekki sé rætt um hækkanir á gjaldskrám sem bitna hlutfallslega meira á tekjulægri hópunum á vinnumarkaði. Þegar kemur að atvinnulausu fólki tekur steininn úr. Skorið er niður til verkefna og þjónustu við atvinnulausa, starfsendurhæfingin er skert gríðarlega og samningum um félagsleg úrræði rift. Aumasta útspilið er þó að neita atvinnulausu fólki um desemberuppbót í aðdraganda jólanna. Það er ein af undirstöðum velferðarkerfisins að tryggja lágmarksframfærslu fólks sem dettur út af vinnumarkaði og að fólk í þeirri stöðu njóti réttinda. Desemberuppbótin er ekki há en getur skipt sköpum fyrir fólk í jólamánuðinum. Starfsgreinasamband Íslands vísar ábyrgðinni á fjármálaráherra og krefst þess að úr þessu verði bætt strax.


Síða 59 Af 60Fyrst...585960