Hafa samband

Fræðsla fyrir ungt fólk

Félagsmálaskóli alþýðu (FMA) hefur tekið saman kynningarefni sem er sérstaklega ætlað ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum. Kynningin er sett fram á myndrænan og líflegan hátt með aðstoð nýjustu tækni. FMA hefur á undanförnum vikum farið með umrædda kynningu í nokkra af framhaldsskólum landsins þar sem hún hefur hún vakið mikla lukku meðal nemenda. Í kynningunni er m.a. fjallað um helstu réttindi og skyldur launafólks, skyldur atvinnurekenda gagnvart starfsfólki, ráðningarsamninga og launaseðla.


Fjármálaráðherra neitar atvinnulausu fólki um desemberuppbót

Niðurskurðarhnífurinn fer víða í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og bitnar hart á lágt launuðu fólki á vinnumarkaðnum. Skuldaniðurfellingarúrræðin koma tekjuhærri betur en tekjulægri hópunum, skattatillögurnar sömuleiðis svo ekki sé rætt um hækkanir á gjaldskrám sem bitna hlutfallslega meira á tekjulægri hópunum á vinnumarkaði. Þegar kemur að atvinnulausu fólki tekur steininn úr. Skorið er niður til verkefna og þjónustu við atvinnulausa, starfsendurhæfingin er skert gríðarlega og samningum um félagsleg úrræði rift. Aumasta útspilið er þó að neita atvinnulausu fólki um desemberuppbót í aðdraganda jólanna. Það er ein af undirstöðum velferðarkerfisins að tryggja lágmarksframfærslu fólks sem dettur út af vinnumarkaði og að fólk í þeirri stöðu njóti réttinda. Desemberuppbótin er ekki há en getur skipt sköpum fyrir fólk í jólamánuðinum. Starfsgreinasamband Íslands vísar ábyrgðinni á fjármálaráherra og krefst þess að úr þessu verði bætt strax.


Staðall um launajafnrétti

ASÍ, SA og velferðarráðuneytið höfðu forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna í samræmi við bókun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og bráðabrigðaákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Verkið var unnið undir leiðsögn Staðlaráðs Íslands og með aðkomu fjölmargra aðila.

Staðlaráð Íslands hefur gefið út staðal sem er ætlaður sem grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja á vinnustöðum:  ÍST 85:2012 – Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar

Markmið staðalsins er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Jafnframt gefst þeim sem uppfylla skilyrði staðalsins möguleika á að fá vottun þar um.

Staðallinn tekur m.a. mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem m.a. er fjallað um þá skyldu atvinnurekanda að tryggja jafnrétti kynja innan fyrirtækis síns eða stofnunar. Einnig er þar kveðið á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á saman hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grunvallar launaákvörðun skuli ekki fela í sér kynjamismunun.

Mikilvægt er fyrir forsvarsmenn og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar að kynna sér jafnlaunastaðalinn, því það er ekki síður á þeirra ábyrgð að hvetja til þess að vinnustaðir innleiði jafnlaunakerfi. Hægt er að nálgast staðalinn hjá Staðlaráði Ísland en hann er fáanlegur í Staðlabúðinni.

Maríanna Traustadóttir, jafnréttisfulltrúi ASÍ tók þátt í gerð staðalsins og er tilbúin að kynna helstu þætti staðalsins og framkvæmd, ef þess er óskað. Hægt er að senda henni fyrirspurn í netfang marianna@asi.is .


Síða 59 Af 59Fyrst...575859