Hafa samband

Formaður SGS á Ísafirði á baráttudegi verkalýðsins

Formaður SGS á Ísafirði á baráttudegi verkalýðsins

Í dag eru 89 ár frá því að íslenskt verkafólk fór í sína fyrstu kröfugöngu á alþjóðlegum baraáttudegi verkalýðshreyfingarinnar. Allar götur síðan hefur launafólk safnast saman til að minnast þess sem hefur áunnist í baráttunni fyrir bættum kjörum, en einnig ítreka að baráttan fyrir auknu réttlæti og betir kröfum er þrotlaus. Í ár var Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins aðal ræðumaður á 1.maí hátíðarhöldum á Ísafirði. Hann byrjaði á að rifja upp þann mikla árangur sem verkalýsðbarátta í heila öld hefur skilað íslensku launafólki. Í alþjóðlegum samanburði eru réttindi og starfsumhverfi á Íslandi með því besta sem gerist í heiminum. Því miður gleymist oft að þessi réttindi komu eftir langa og hatramma baráttu og samstöðu launafólks gagnvart atvinnurekendum.

 

Síðustu misserum hafa blossað deilur og átök í íslensku samfélagi og stjórnmálum. Verkalýðshreyfinin hefur ekki farið á mis við þessi átök og hefa margir reynt að ýta undir ósamlyndi. Það hafa verið veruleg átök innan SGS um menn og málefni, en lengi voru efasemdir um að sambandið myndi lifa þessi átök af. Ljóst er að þessar deilur hafa veikt innvið verkalýðshreyfingarinnar, en samstaða er einn af mikilvægustu þáttum í verkalýðsbaráttunni. Við verðum að hætta að kynda undir sundrung og snúa bökum saman því öll stefnum við að sama marki.

Í ræðu sinni kom Björn einnig inn á launamun kynjanna, sem ætlar að vera erfitt að eyða þrátt fyrir skýra löggjöf og góðan vilja. Starfsgreinasambandið krefst þess að þessum kynbundna launmun verði eytt og kvennastörfum gert jafnhátt undir höfði og hefðbundnum karlastörfum.

Að lokum kom Björn inná yfirskrift 1.maí í ár „VINNA ER VELFERГ, en án atvinnu getur lífsbaráttan orðið mjög erfið. Við atvinnumissi hrynja í raun allir eðlilegir afkomumöguleikar einstaklingsins. Félagsleg tengsl hans rofna og sjálfsmyndin skaðast. Ofan á þessar persónulegu hremmingar bætist missir samfélagsins sem fær ekki notið hæfileika og kunnáttu þess atvinnulausa. Í dag eru um 12 þúsund manns í þessari stöðu og það er algerlega óásættanlegt. Hátt atvinnustig og lítið atvinnuleysi er ein af meginkröfum verkalýðshreyfingarinnar.

Ísland er gjöfult og tækifæri til atvinnu eiga að vera nóg. Við búum við ein fengsælustu fiskimið í heimi, eigum hreinan og öflugan landbúnað, ferðaþjónustan eflist með hverju árinu, þekkingariðnaðurinn dafnar og svo eigum við auðlindir eins og hreint vatn og græna orku sem verða sífellt eftirsóknarverðari.

Tilraunir núverandi ríkisstjórnar til að efla atvinnulíf í landinu og minnka atvinnuleysi hafa því miður verið kraftlitlar og ómarkvissar. Verkalýðshreyfingin krefst þess að stjórnvöld ráðist strax í aðgerðir til þess að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á hraðar. Verkalýðshreyfingin hefur bent á leiðir til að koma atvinnumálunum á hreyfingu, en stjórnmálamenn virðast eiga erfitt með að ná saman um þær leiðir sem nauðsynlegar eru til að vinna okkur út úr kreppunni.

Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því frá upphafi kreppunnar að fjárfest væri í því fólki sem misst hefur vinnuna, með því að efla menntunar- og starfsþjálfunarúrræði sem standa atvinnuleitendum til boða. Fjölmörg ungmenni hafa verið án atvinnu í langan tíma og eru ekki þátttakendur í skólakerfinu heldur. Þessu er afar brýnt að breyta, en reynsla finna frá kreppunni upp úr 1990 kennir okkur að heilu árgangar ungmenna fóru á mis við menntun og möguleika á atvinnuþátttöku með hörmulegum afleiðingum. Þessi ungmenni eru gjarnan kölluð „týnda kynslóðin“ og þau hafa alla tíð síðan átt erfitt uppdráttar í finnsku samfélagi.

Dagurinn í dag er ekki einungis baráttudagur vinnandi fólks, heldur er þetta baráttudagur fyrir atvinnu. Það eru mannréttindi að einstaklingar sem geta unnið hafi vinnu og mannsæmandi laun fyrir. Þannig geta þeir séð sér og sínum farborða, en um leið orðið virkur þátttakandi í samfélaginu. Við verðum að tryggja að allir sem geta unnið fái að vinna. Það er krafa dagsins. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið og velferð okkar að starfskraftar sem flesta eru nýttir.