Hafa samband

FRÉTTIR

Fræðsludagar starfsfólks stéttarfélaganna

Dagana 12. og 13. febrúar stóð Starfsgreinasambandið fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga sambandsins, en þetta var í fimmta sinn sem SGS stendur fyrir viðburði sem þessum. Að þessu sinni fóru fræðsludagarnir fram á Hótel Bifröst, þar sem gestir dvöldu í góðu yfirlæti og fallegu umhverfi. Tæplega 30 einstaklingar höfðu boðað komu sína, en vegna veðurs þá forfölluðust nokkrir úr hópnum. Lagt var upp með að hafa dagskrána sem gagnlegasta og því var leitað til þátttakenda eftir hugmyndum. Á dagskrá voru erindi af ýmsum toga, þar á meðal má nefna einkar fróðlega fordómafræðslu frá fulltrúm Rauða krossins, erindi um lífeyrissjóðakerfið og síðast en ekki síst þá hélt markþjálfinn Ragnhildildur Vigfúsdóttir líflegan fyrirlestur undir yfirskriftinni “Ertu fýlupúki eða gleðigjafi?”.

Eins og áður sagði var þetta í fimmta skipti sem SGS stendur fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk stéttarfélaganna og var góður rómur gerður að þeim í þetta skiptið eins og fyrr. Oft sköpuðust líflegar umræður og fólk var óhrætt að spyrja út í hin ýmsu atriði. Þá eru slíkir dagar ekki síst mikilvægir upp á félagslega þáttinn, þ.e. að fólk allsstaðar af landinu komi saman til að fræðast, ræða saman og eiga skemmtilegar stundir.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá viðburðinum.