1. maí. Aukum atvinnu - bætum kjörin.

Nú 1. maí, á baráttudegi verkafólks eru kjaraviðræður í hnút. Krafa dagsins er um aukna atvinnu og bætt kjör. Fyrir verkalýðshreyfinguna og okkur í Starfsgreinasambandinu var krafa dagsins um aukna atvinnu og bætt kjör lykilkrafa. Við viljum og vildum auka kaupmáttinn og við vitum að lífskjörin verða því aðeins bætt að raunveruleg verðmætasköpun liggi að baki. Þess vegna vorum við tilbúin til að fara þá atvinnuleið sem Samtök atvinnulífsins lögðu til,  því hin leiðin er verðbólguleið sem fjallar um kauphækkanir án hagvaxtar, án innistæðu með minni kaupmátt og kjaraskerðingar þegar upp er staðið eins og Seðlabanki varaði við þegar hann kynnti síðustu vaxtaákvörðun sína. Þá töldu sérfræðingar bankans að launabreytingar gætu farið yfir þau mörk sem stöðugleikinn þolir og þá er verr af stað farið en heima setið í því ástandi sem nú ríkir. Menn voru hóflega bjartsýnir fyrir páska. Kjarasamningur, annars vegar með krónutöluhækkun, sem gagnast taxtafólkinu best og prósentuleið fyrir hina, var í sjónmáli 15. apríl. Auk þess virtist vilji atvinnurekenda í fiskvinnslu standa til þess að lagfæra reiknitölur í bónus sem tryggt hefði fiskvinnslufólki aukinn kaupmátt til viðbótar öðrum launabreytingum. Þetta reyndist blekking. Samtök atvinnulífsins ætluðu ekki að semja nema þau fengju fram vilja sinn um sjávarútvegsmál gagnvart ríkisstjórninni. Slík gíslataka stríðir gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Krafan er sett fram til að þvinga stjórnvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim ber ekki að gera samkvæmt ákvæðum laganna.  Kjaradeilan er komin í hnút. Samtök atvinnulífsins fara ekki að lögum. Ríkisstjórnin lætur ekki kúga sig. Hvaða óvissa í sjávarútvegsmálum tefur fyrir gerð kjarasamninga?  Er það óvissan fyrir fiskvinnslufólkið? Hvað eru ekki mörg dæmi um það að kvóti hafi verið fluttur burt úr byggðum þar sem íbúarnir hafa verið skildir eftir atvinnulausir með sárt ennið og verðlausar eignir?  Á það að vera svoleiðis óvissa til frambúðar í byggðum landsins að örlög og atvinnumöguleikar séu alfarið í höndum örfárra útvegsmanna? Viljum við það eða viljum við tyggja að allir Íslendingar njóti atvinnumöguleika og ávaxta af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar? Að það sé í okkar höndum og lögmætra stjórnvalda hvernig hér verður gert út áfram. Eiga útvegsmenn að ráða því einir? Það, að ótryggt sé að útvegsmenn ráði einir framvindu mála áfram sem hingað til er þeirra óvissa. Þeirri óvissu vilja þeir eyða á kostnað okkar hinna. Starfsgreinasambandið hefur tekið undir mikilvægi byggðasjónarmiða í umræðunni um sjávarútveg og fiskvinnslu en hafa verður í huga að flutningur á kvóta úr einu byggðarlagi í annað kvótaminna er ekki endilega lykill að atvinnuuppbyggingu þar. Þvert á móti gæti slíkur tilflutningur haft tjón í för með sér fyrir heildina. Sú  var tíðin að fiskiskipaflotinn var allt of stór og svo virðist reyndar vera enn. Mest er um vert að kvótinn nýtist sem best öflugum fyrirtækjum, stórum og smáum í klasabyggðum landshlutanna, eins og t.d. í Vestmannaeyjum og við Eyjafjörð og víðar þar sem þjónustugreinar við útveg og önnur sjávarútvegstengd starfsemi getur þróast og haft tryggan rekstrargrundvöll líka. Búast menn við að ríkisstjórnin, verkalýðshreyfingin og fólkið í landinu séu á móti þessu? Eru Samtök atvinnulífsins og útvegsmenn að storka lýðræðinu?   Þær kjaraviðræður sem fóru af stað í nóvember í fyrra með það markmið verkafólks og Samtaka atvinnulífsins  að bæta kjörin með aukinni verðmætasköpun hafa snúist upp í deilu um það hver eigi að stjórna landinu. Vissulega höfum við í verkalýðshreyfingunni beitt okkar samtakamætti til að knýja á um félagsleg réttindi en það hvernig útvegsmenn og Samtök atvinnulífsins beita valdi sínu nú tekur út yfir allan þjófabálk. Því verðum við að mæta af fyllstu hörku en við megum heldur ekki skella skollaeyrum við þeim aðvörunarorðum sem komu úr Seðlabankanum um daginn. Þess vegna flýtum við okkur hægt og viljum nú semja til eins árs og sjá svo til hvort hagvaxtarleiðin verði fær þegar Samtök atvinnulífsins hafa fangað skynsemi sína og áttað sig á því að það er réttur ríkisstjórnarinnar að stjórna landinu.   Ríkisstjórnin verður hins vegar að hafa í huga að því fylgir pólitísk ábyrgð að stjórna og nú reynir á þá ábyrgð. Sú ábyrgð felst fyrst og fremst í því að hafa forystu fyrir umræðu og ráðstöfunum sem leiða til hagvaxtar og stöðugleika og geta um leið komið í veg fyrir að kjarasamningar til lengri eða skemmri tíma leiði til aukinnar verðbólgu. Í þeirri umræðu vill verkalýðshreyfingin axla sína ábyrgð af festu og með afli ef nauðsyn krefur og við látum ekki hvað sem er yfir okkur ganga.   Verkalýðshreyfingin ræðir nú verkfallsaðgerðir til að mæta óbilgirni atvinnurekenda. Það er gert í nauðvörn.  1. maí í ár er þess vegna öðrum dögum mikilvægari. Í dag er kominn tími til að berjast fyrir endurreisn atvinnulífsins og koma kjarabótum á raunverulegt skrið. Einungis samstaða dugar til þess. Þá samstöðu getum við sýnt 1. maí, á baráttudegi verkafólks.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)