Aðalsteinn Leifsson skipaður ríkissáttasemjari

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skipaði í dag Aðalstein Leifsson framkvæmdastjóra hjá EFTA sem ríkissáttasemjara frá og með 1.apríl nk. Helga Jónsdóttir settur ríkissáttasemjari mun gegna störfum fram til þess tíma.

Þann 5. desember 2019 auglýsti félagsmálaráðuneytið laust til umsóknar embætti ríkissáttasemjara og var umsóknarfrestur til og með 20. desember 2019. Alls bárust sex umsóknir um embættið en einn umsækjandi dró á síðari stigum umsókn sína til baka. Ráðgefandi nefnd var skipuð af félags- og barnamálaráðherra þann 3. janúar 2020 til að meta hæfni umsækjenda um embætti ríkissáttasemjara. Nefndin skilaði umsögn sinni 27. janúar 2020 þar sem niðurstaða nefndarinnar var að þrír umsækjendur væru jafnhæfir til að gegna embætti ríkissáttasemjara.

Það er mat félags- og barnamálaráðherra að af þessum þremur einstaklingum uppfylli Aðalsteinn Leifsson best þær kröfur sem gerðar eru til þess sem skipaður verður í embættið. Eftir samráð við forsvarsmenn samtaka aðila vinnumarkaðarins er það enn fremur niðurstaða ráðherra að afstaða Aðalsteins Leifssonar sé slík að telja verði hana óvilhalla í málum launafólks og atvinnurekenda enda hafi hann samhliða öðrum störfum, starfað sem aðstoðarríkissáttasemjari frá því í byrjun árs 2019.

Aðalsteinn lauk MBA námi frá Edinburgh Business School / Herriot Watt University í október 2004. Auk þess hefur hann lokið MSc námi frá London School of Economics (LSE). Þá stundaði hann doktorsnám í samningatækni hjá Greneoble Ecole de Management samhliða vinnu á árunum 2016-2018. Frá því í janúar 2014 hefur Aðalsteinn leitt daglegan rekstur EFTA sem hefur starfstöðvar í Genf, Brussel og Luxemburg en einnig hefur hann leitt skrifstofu aðalframkvæmdastjóra EFTA. Samhliða starfi sínu hjá EFTA hefur Aðalsteinn starfað sem lektor við Háskólann í Reykjavík þar sem hann hefur meðal annars kennt samningatækni og lausn deilumála í MBA námi og í meistaranámi innan hinna ýmsu deilda skólans.

Starfsgreinasambandið óskar Aðalsteini til hamingju með embættið og vonast eftir að eiga við hann farsæl samskipti í framtíðinni.

  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag