Af Evrópuvettvangi: Unga fólkið

Í tengslum við þing EFFAT (evrópskra samtaka launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði) hélt ungt fólk innan samtakanna sérstakt málþing. Gríðarlegt atvinnuleysi ungs fólks í kjölfar kreppunnar í Evrópu er mesta áhyggjuefnið en á Spáni er atvinnuleysi meðal ungs fólks til dæmis um 50%. Í upphafi málþingsins var sýnt myndband um stöðuna og slagorðið „ykkar kreppa – okkar framtíð“ hljómaði sterkt. Atvinnuleysið í sjálfu sér er afar slæmt en það veikir líka mjög stöðu þeirra sem eru með vinnu. Fólk gerir nánast hvað sem er til að komast með tærnar inn á vinnumarkaðinn og fólk vinnur jafnvel ólaunað á þjálfunartímabili. Svokallaðir núlltímasamningar eru allt of algengir en þá bindur fólk sig í ráðningarsamband með sveigjanlegt starfshlutfall og fólk veit aldrei fyrir víst hvort það vinnur þann daginn eða hvað það fær útborgað. Tímabundnir samningar eru sömuleiðis algengir. Ástandinu má í raun líkja við daglaunakerfið sem við þekkjum aðeins úr sögubókum á Íslandi. Bæði núlltímasamingarnir og tímabundnu ráðningasamningarnir gera það að verkum að fólk getur ekki skipulagt framtíðina, það nýtur ekki lánstrausts til að kaupa bíl eða húsnæði og byggir ekki upp réttindi með sama hætti og fastráðið starfsfólk. Lýsing á ástandinu í Evrópu gerir Íslending þakklátan fyrir þann ramma sem íslenski vinnumarkaðurinn starfar innan, en núlltímasamningar eru að sjálfsögðu bannaðir á Íslandi. Þá má geta þess að ýmis vinnumarkaðsúrræði voru gangsett í kreppunni á Íslandi til að koma sérstaklega í veg fyrir atvinnuleysi ungs fólks. Ein helst áskorunin sem varðar ungt fólk í Evrópu, fyrir utan atvinnuleysið og slæma stöðu á vinnumarkaði er að fá ungt fólk til liðs við verkalýðshreyfinguna. Í flestum löndum er þátttaka valkvæð og getur verið ógn við atvinnuöryggi fólks. Mikil áhersla var lögð á að verkalýðshreyfingar tækju vel á móti ungu fólki, kæmi því inn í stjórnir og trúnaðarráð og virkjuðu samfélagsmiðla til að ná til ungs fólks. Undir lok málþingsins var þátttakendum uppálagt að búa til samning um að virkja ungt fólk og átti að nefna nokkra þætti sem viðkomandi skuldbatt sig til að gera. Fulltrúi Starfsgreinasambands Íslands lagði áherslu á þrennt:
  • Að halda áfram að þrýsta á yfirvöld á Íslandi að innleiða fræðslu í skóla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og hlutverk Verkalýðshreyfinga.
  • Að halda áfram herferð á facebook, sérstaklega ætlaðri ungu fólki til að kynna réttindi og skyldur.
  • Að vekja máls á stöðu ungs fólks á næsta þingi Starfsgreinasambandsins og hvetja aðildarfélög til að virkja ungt fólk í sínum félögum.
  [caption id="attachment_8601" align="aligncenter" width="300"]Stjórn ungliða hjá EFFAT Stjórn ungliða hjá EFFAT[/caption]
  1. 9/1/2021 12:15:24 PM Þingi SGS frestað
  2. 6/10/2021 2:06:09 PM Skil­orðs­bundin lífs­hætta
  3. 5/21/2021 12:10:15 PM Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunna…
  4. 5/19/2021 10:16:15 AM Formenn funda í Mývatnssveit