Aukinn réttur starfsfólks í heimaþjónustu

Þing EFFAT (evrópskra samtaka launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði) er haldið 20. og 21. nóvember en í aðdraganda þess var haldin kvennaráðstefna með sérstakri áherslu á launuð heimilisstörf. Slík störf fyrirfinnast alls staðar í Evrópu og hefur fjölgað ört eftir því sem velferðarkerfi dragast saman og störf kvenna utan heimilis aukast. Margar fjölskyldur bregða á það ráð að kaupa þjónustu inn á heimili vegna þrifa, þvotta, barnagæslu og umönnun aldraðra. Staða fólk sem vinnur þessi störf hefur verið í brennidepli undanfarin ár enda er víða pottur brotinn. Alþjóða vinnumálastofnunin samþykkti til dæmis sérstaka samþykkt um heimilisstörf (Domestic Work Convention nr. C189) þar sem fjallað er um réttindi þeirra sem sinna launuðum heimilisstörfum. Samþykktin hefur ekki enn hlotið fullgildingu á Íslandi. Á kvennaráðstefnunni voru kynntar til sögunnar aðferðir við að nálgast heimilisstarfsfólk og rætt var mikilvægi þess að gera kjarasamninga fyrir þessa stétt. Kynntar voru niðurstöður rannsóknar meðal aðildarsamtaka EFFAT og er ljóst að mörg lönd hafa hvorki kjarasamning fyrir stéttina né hugmynd um umfang hennar. Í rannsókninni kom fram að kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtakanna nær yfir hópinn á Íslandi. Að auki má geta þess að samningur Starfsgreinasambands Íslands og NPA miðstöðvarinnar nær yfir fólk sem aðstoðar fatlað fólk inni á heimilum þess. Það eru því til kjarasamningar á Íslandi en vandinn hér er sá sami og víðast hvar annars staðar - markaðurinn er að mestu neðanjarðar og erfitt að ná til fólks sem starfar inni á heimilum annarra. Nokkur lönd hafa farið þá leið að veita skattaafslátt til heimila sem ráða til sín fólk og hefur slíkt aukið sýnileika starfanna og komið þeim upp á yfirborðið. Svíþjóð hefur farið þessa leið, Ítalía sömuleiðis þó að breytinga sé að vænta þar og auk þess er Belgía með kerfi þar sem heimili fá tilvísanir til að nota til kaupa á heimilisþjónustu. Flestir mæltu með slíkum kerfum en vissulega eru aðrir sem spyrja þeirra spurninga hvort skattgreiðendur eigi að niðurgreiða heimilisþjónustu fyrir betur stæða einstaklinga. Til að ná til einstaklinga í heimilisþjónustu og kynna þeim réttindi sín hafa stéttarfélög víða um Evrópu sótt kaþólskar kirkjur og komið upp tengslaneti þannig, en stærstur hluti þeirra sem starfa í heimilisþjónustu eru innflytjendur frá kaþólskum löndum. Það sem vakti mesta athygli undirritaðrar voru fyrrum starfskonur í heimilisþjónustu, þær Mariss og Rosita, sem sögðu frá aðbúnaði stéttarinnar og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum í Bretlandi. Þær líktu aðstöðunni við þrældóm og sögðu frá fullkomnu réttindaleysi, kjörum undir lágmarkslaunum og ofbeldi sem margar konur verða fyrir. Þær starfa nú fyrir Unite the Union í bretlandi og reka baráttuna J4DW (Justice for domestic workers). Á þessum vettvangi er greinilega unnið öflugt starf sem felst í áróðri, fræðslu og samstöðu. Kröfur þeirra eru að starfsfólk geti skipt um atvinnurekenda, fái dvalarleyfi í landinu, fái ótímabundið dvalarleyfi eftir fimm ár í starfi, geti fengið fjölskyldu sína til sín auk þess sem þær leggja áherslu á að Bretland innleiði samþykkt alþjóða vinnumálastofnunarinnar um störf á heimilum. Í lok ráðstefnunnar var samþykkt ályktun um áhersluatriði, kosinn var nýr forseti og varaforseti samtakanna og ákveðið að ríkisstjórnum Evrópulanda yrði sent samhljóða bréf frá ráðstefnunni. Bréfið verður birt í íslenskri þýðingu síðar. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS og fulltrúi SGS á þingi EFFAT [caption id="attachment_8596" align="aligncenter" width="300"]Stöllurnar Marissa og Rosita Stöllurnar Marissa og Rosita[/caption]
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)