Bakkavör ræðst á verkafólk í Bretlandi

Nú hafa þeir Bakkabræður, Ágúst og Lýður Guðmundssynir  ráðist til atlögu gegn verkafólki við ávaxta- og grænmetisiðju Bakkavarar í Bourne í Lincolnshire í Englandi. Störf eru britjuð niður, laun lækkuð og vinnuskilyrði skert. Þau voru þó fyrir ein þau lökustu í  Bretlandi. Efnt verður til mótmælaaðgerða, kröfugöngu og útifundar föstudaginn 17. desember í Spalding þar sem höfðuðstöðvar Bakkavarar eru til húsa. Það er breska verkalýðssambandið Unite the Union, systursamtök Starfsgreinasambands Íslands, sem stendur fyrir mótmælunum. Markmið mótmælanna er að senda skýr skilaboð til stjórnenda Bakkavarar að Unite muni aldrei láta það gerast að félagsmenn þess verði þvingaðir til þessa niðurskurðar baráttulaust. Unite heldur því fram að þeir Bakkabræður hafi hundsað allar tillögur um samráð við verkalýðshreyfinguna, hvað þá tekið tillit til sjónarmiða hennar um endurskipulagningu í Bourne. Bakkavör heldur því fram að fyrirtækið þurfi að spara fimm milljónir punda til að stöðva taprekstur en Unite telur að tapreksturinn, sé um taprekstur að ræða, stafi fyrst og fremst af óhæfum stjórnendum fyrirtækisins og stjórnunarstíl þeirra. Bakkabræður hafa ekki getað sýnt fram á að niðurskurðurinn sé nauðsynlegur vegna rekstrarins. Unite telur einnig að Bakkavör sé að keyra í gegn niðurskurðinn í Bourne fyrir áramót til þess að komast hjá nýrri löggjöf, the Agency Worker Regulations, um að fyrirtæki skuli meðhöndla alla starfsmenn jafnt og gengur í gildi á næsta ári. Unite mótmælir því að verkafólk í Bourne og fjölskyldur þess sé látið borga fyrir stjórnunarmistök Bakkabræðra Starfsgreinasamband Íslands, ásamt Evrópusamtökum verkafólks í matvælavinnslu, EFFAT, reyndi árið 2008 að fá Bakkavör til þess að undirrita viljayfirlýsingu um samstarf til þess að tryggja grundvallarréttindi verkafólks innan Bakkavarar og að félagið fari að skuldbindingum Evrópureglna um samráð en rúmlega ellefu þúsund starfsmenn starfa á vettvangi Bakkavarar viða um heim m.a. innan Evrópu þar sem lagaskylda er um samráð við starfsmenn fyrirtækja. Bakkavör neitaði hugmyndum Starfsgreinasambandsins og EFFAT og hefur síðan þá verið á svörtum lista á alþjóðavettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Það kemur því ekki á óvart að þeir bræður, Ágúst og Lýður skuli nú komnir í hár saman við við bresku verkalýðshreyfinguna þ.e. Unite the Union. Starfsgreinasambandið tekur að sjálfsögðu undir kröfur Unite gegn Bakkavör og hvetur íslesku verkalýðshreyfinguna til að gera slíkt hið sama en senda má stuðningsyfirlýsingu og baráttukveðjur á netfangið:dontchopbakkavor@unitetheunion.com.   Exista hf er nú skráð með 32% eignarhlut í Bakkavör. Nauðasamningar sem kröfuhafar Bakkavarar samþykktu í sumar sem leið gerðu ráð fyrir að þeir Bakkabræður fengju 25% hlut í félaginu árið 2014 gegn því að staðið verði í skilum við kröfuhafa fyrir þann tíma. Ágúst er áfram forstjóri en kröfuhafar fengu tvo menn í stjórn fyrirtækisins, þá Halldór Lúðvígsson frá Aríon banka og Bjarna Þórð Bjarnason sjálfstætt starfandi ráðgjafa. Stærstu kröfuhafarnir eru skilanefnd Kaupþings og útlenskir bankar í meirihluta, Aríon banki, Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Lífeyrissjóðirnir voru í minnihluta við gerð nauðasamningsins og að kröfu hinna erlendu banka varð það skilyrði sett að Ágúst væri áfram forstjóri. Við hljótum að krefjast þess gagnvart fulltrúum kröfuhafa í stjórn Bakkavarar að þeir  beiti sér fyrir því að fyrirtækið fari að kjarasamningum og lögum í samskiptum sínum við launafólk.  Þannig tökum við undir kröfu Unite í Bretlandi.  
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag