Ferðaþjónustan festir sig í sessi

Í nýútkominni skýrslu Ferðamálastofu um ferðaþjónustuna á Íslandi er staðfest aukning á ferðamönnum til landsins milli ára. Hlutfall ferðaþjónustu í gjaldeyristekjum er orðið 23,5% og hefur farið stigvaxandi síðustu þrjú árin. Ferðaþjónustan aflar um 237.707 milljarða í þjóðarbúið og nær 20% fleiri ferðamenn komu til landsins 2012 en árið áður. Ferðaþjónustan er því orðin stór hluti af okkar lífsviðurværi og að sjálfsögðu stækkandi hluti af vinnumarkaðnum að auki.

Í september á síðasta ári unnu um 17% félagsmanna í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins í ferðaþjónustutengdum greinum svo sem hótel- og veitingaþjónustu, flugvallaþjónustu og í hópferðaakstri. Það hefur verið áhyggjuefni hversu árstíðarbundin þessi störf eru og erfitt að byggja upp þekkingu, reynslu og menntun til langs tíma. Þetta virðist þó vera að breytast eitthvað. Þannig kemur í ljós að komur ferðamanna til landsins dreifast nú betur yfir árið en verið hefur - hlutfallslega fleiri koma yfir vetrartímann þó vissulega sé meginþunginn á sumrin.  Þetta gerir það að verkum að forsendur fyrir heilsársstörfum innan ferðaþjónustunnar eru að batna og þar með möguleikarnir á að byggja upp atvinnugreinina enn frekar.

Laun í greininni eru áhyggjuefni en heildarlaun starfandi fólks í greininni eru með þeim lægstu sem sjást sem gefur vísbendingar um hátt hlutfall hlutastarfa auk lágra launa í greininni. Þá hefur svört atvinnustarfsemi verið sérstakt áhyggjuefni í greininni og leitt að því líkum að hlutfall neðanjarðarstarfseminnar sé mest í hótel- og veitingaþjónustu (skv. skýrslu átaksverkefnis ASÍ, SA og RSK). Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins hafa orðið vör við kjarasamningsbrot og svarta atvinnustarfsemi, sérstaklega þegar sumarvertíðin er gerð upp og fólk leitar réttar síns. Skýrsla Ferðamálastofu gefur þó væntingar um að hægt sé að taka fastar á málum í ferðaþjónustunni eftir því sem henni vex ásmeginn og festir sig í sessi sem heilsárs atvinnugrein.

Skýrsluna má nálgast hér  
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag