Fíkniefnapróf á vinnustöðum

Þegar fjölmiðlar fjalla um fíkniefnapróf á vinnustöðum og brottrekstur í kjölfarið er tilefni til að velta fyrir sér hvar mörkin liggja á milli persónuverndar og öryggisráðstafana atvinnurekenda. Það er ekki alveg sjálfsagt mál að atvinnurekendur skikki starfsfólk í áfengis- eða fíkniefnapróf jafnvel þó verið sé að gera tilraunir til að uppræta það sem við getum öll verið sammála um að sé samfélagsmein. Íslendingar eru aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstóllinn hefur fjallað um hvernig fíkniefnapróf á vinnustöðum samræmast sáttmálanum. Þar er nefnilega kveðið á um að sérhver maður eigi rétt á friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskrifta (gr. 8.1. lög 62/1994). Á þetta ákvæði reyndi fyrir dómstólnum þegar ræstingakona í kjarnorkuveri í Svíþjóð neitaði að gangast undir fíkniefnapróf. Forsaga málsins er sú að vinnustaðurinn samdi við viðkomandi verkalýðsfélög um að innleiða fíkniefnapróf en þegar átti að gera það afturvirkt gagnvart starfsfólki sem þegar hafði verið ráðið þá ákvað eitt félagið að láta á það reyna hvort það stæðist lög. Inga-Lill Wrestlund hafði starfað í ræstingum á skrifstofunum í kjarnorkuverinu lengi og hún fór með málið fyrir sænska Vinnudómstólinn ásamt verkalýðsfélaginu. Rökin hennar voru þau að ekkert í ráðningasamningnum skuldbatt hana til að undirgangast fíkniefnapróf, ekki var um slíka samninga að ræða milli vinnustaðarins og verkalýðsfélagsins auk þess sem starf hennar væri þess eðlis að öryggissjónarmiðin ættu varla að vega þungt. Vinnudómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að henni bæri að fara í prófið ef ákveðnum skilyrðum væri fullnægt og málinu var áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu komst einnig að þeirri  niðurstöðu að atvinnurekanda væri heimilt að krefja starfsfólk um að undirgangast fíkniefnapróf ef forsendurnar væru skýrar. Röksemdafærsla dómstólsins var sú að á vinnustað eins og kjarnorkuveri væri eðlilegt að vera með fíkniefnaprófanir út frá öryggissjónarmiðum að því gefnu að starfsfólk væri vel upplýst um slíkt. Dómstóllinn tók líka tillit til þess að fíkniefnaprófin voru tekin í einrúmi, niðurstöðurnar voru kynntar einungis fyrir þeim sem tóku prófin og ekki var farið í manngreinaálit við prófin. Þannig voru allir starfsmenn skikkaðir í próf en ekki einn og einn tekinn fyrir. Þennan dóm er vert að hafa í huga við umræðuna um fíkniefnapróf á vinnustöðum í dag. Er það til dæmis skýrt tekið fram í ráðningasamningum að fíkniefnapróf séu hluti af starfsmannastefnunni? Er farið í manngreinaálit við prófanir eða eru allir teknir í próf (eða fólk af handahófi)? Hvernig er farið með niðurstöður prófanna, o.s.frv.. Þegar fólk er ráðið til vinnu þarf sem sagt að vera ljóst að það getur þurft að gangast undir fíkniefnapróf að skilyrðum uppfylltum en það þarf líka að vera ljóst hverjar afleiðingarnar eru ef prófin reynast jákvæð. Það þarf öllum að vera fullljóst áður en til ráðningasambandsins er stofnað.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag