Fjölbreytt dagskrá á LÝSU - Rokkhátíð samtalsins

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins verður haldin hátíðleg dagana 6. og 7. september í Hofi á Akureyri. LÝSA er fyrir alla þegna samfélagsins og er mikilvægur vettvangur til að ræða málefni líðandi stundar og byggja brú milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks. Á hátíðinni fara fram bæði áhugaverðar og mikilvægar umræður sem snerta okkur öll og er markmiðið að hvetja allar stéttir samfélagsins til samtals. Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess munu taka virkan þátt á LÝSU með mörgum áhugaverðum viðburðum. Á föstudag 6. september kl. 16:00 stendur ASÍ fyrir fundi undir yfirskriftinni Er launaþjófnaður goðsögn eða veruleiki? Gerð verður grein fyrir niðurstöðum nýlegrar rannsóknar Hagdeildar á launaþjófnaði og brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Þá verður kynnt ný rannsókn á vegum ASÍ sem byggir á viðtölum við útlendinga á íslenskum vinnumarkaði þar sem varpað er frekara ljósi á umfang og eðli launaþjófnaðar og brotastarfsemi á vinnumarkaði. ASÍ og ASÍ-UNG standa fyrir dagskrá á Götubarnum að kvöldi 6. september þar sem boðið verður upp á söng, mat og skemmtun. Fjörið byrjar kl. 18.30 þegar gestum og gangandi verður boðið upp á glóðarsteiktar pylsur að hætti Norðlendinga. Meðan gestir gæða sér á dásemdunum verða spilaðir skemmtilegir söngvar sem munu vekja baráttuhug og gleði viðstaddra. Klukkan 20.00 mun svo ASÍ-UNG taka við með pub quiz. Áhugasamir verða þá spurðir spjörunum úr um allt sem viðkemur verkalýðnum og baráttunni undanfarin 100 ár eða svo. Að því loknu, kl. 21.00, verður gítarinn svo tekinn aftur fram þegar dúettinn Vandræðaskáld stíga á stokk og kyrja alla gömlu góðu verkalýðs- og baráttusöngvana. Einnig er vert að benda á tvo fundi sem félög iðnaðarmanna innan ASÍ standa fyrir. Föstudaginn 6. september kl. 13:00 er fundur með yfirskriftinni Er það hlutskipti iðnaðarins að vera umhverfissóðar? og laugardaginn 7. september kl. 13:00 verður spurt: Er stytting vinnuvikunnar lýðheilsumál eða kjaramál? Nánari upplýsingar um LÝSU og alla dagskrá hátíðarinnar má finna hér.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)