Icesave og kjarasamningar

Starfsgreinasambandið hefur lengi verið þeirrar skoðunar að ljúka þurfi Icesave-málinu og að dráttur á því hafi skaðað endurreisn efnahagslífsins. Það er rangt að ,,ekkert hafi gerst” þegar fyrri Icesave-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skuldatryggingarálag hækkaði og hefur verið óviðunandi síðan. Og enn hefur það svo  hækkað síðustu tvo daga eftir yfirlýsingu forsetans. Lánshæfismat Íslands hefur að sama skapi minnkað. Atvinnuleysi er enn óviðunandi með öllu og óvíst hver þróunin verður  ef Icesave á enn að hanga yfir okkur eins og bölský. Sá samningur sem nú liggur á borðinu og Alþingi samþykkti með miklum meirihluta er afsprengi samkomulags allra stjórnmálaflokkanna á þinginu. Stjórnarandstaðan  skipaði sérstakan fulltrúa sinn í samninganefndina, Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann sem var í nánu samstarfi við hana  fram til þess að skrifað var undir samninginn. Icesavesamningurinn er m.ö.o. ávöxtur þingsins alls en ekki ríkisstjórnarinnar einnar, eins og margir vilja vera láta. Þótt tveir minnstu flokkarnir hafi hlaupist að hluta undan merkjum á endasprettinum, verður ekki séð að neitt gap sé milli þings og þjóðar eins og einu sinni var. Málið er samt aftur og óvænt komið í fangið á þjóðinni þó hér verði ekki lagt mat á þau rök sem Forseti Íslands velur sér í þetta sinn. Það er afar ,,mikilvægt fyrir Ísland að hafa aðgang að erlendu lánsfé auk þess sem traust á Íslandi myndi minnka gríðarlega hafnaði þjóðin samningnum eftir að hafa reynt að semja um málið þrisvar sinnum,” sagði Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Það borgar sig betur að taka þessum samningum og setja málið aftur fyrir sig heldur en að hafna málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, segir Ragnar líka. En spurningin er hvort Icesavemálið hafi áhrif á þær kjaraviðræður sem nú standa yfir? Svo má vel vera. Gjaldeyrishöft, óviðunandi skuldatryggingarálag Íslands og lánsfjárfyrirgreiðsla til Íslands sem ekki fæst og er háð lausn á Icesavedeilunni eru ekki til þess fallin að skapa grundvöll stórræða í atvinnuuppbyggingu hér á landi sem er m.a. veigamikil forsenda kjarabóta. Það er því af og frá að ætla að ekkert muni gerast, eins og ekkert hafi gerst, þótt samningurnn falli eins og reynt verður að halda fram. Það höfum við upplifað í raun síðastliðið ár meðan allt hefur verið hér í hægferð. Forseti Íslands hefur enn hægt á ferðinni, a.m.k. um sinn og tekið áhættuna af því að lestin hökti á sporinu næstu misserin og árin ef samningurinn fellur. Það er óviðunandi ábyrgðarleysi.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag