Ísland og jafnréttið á Alþjóðavinnumálaþinginu

Jafnrétti kynjanna var ofarlega á baugi á nýloknu þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Íslenska ríkisstjórnin stóð í samstarfi við Evrópusambandið, Kanada og fleiri fyrir hliðarviðburði þar sem ábyrgð karla á jafnréttismálum var rædd. Kynnt var skýrsla um stöðu feðra í heiminum og kom fram í kynningu á henni að konur vinna alls staðar meira en karlar þegar tekið er tillit til vinnu utan og innan heimilisins. Karlar sinna aðeins um fjórðungi af umönnun barna sinna og það er mjög breytilegt eftir heimshlutum hvernig staðan inni á heimilum er, verst er staðan í Suður Asíu. Þá er mjög mikil tenging á milli fátæktar samfélaga og lágrar þátttöku feðra í umönnun barna. Sjá skýrsluna hér: https://sowf.men-care.org/download/ Það sem hefur hvað mest áhrif á hvort feður taka þátt í umönnun og uppeldi er fyrirmyndin sem þeir hafa sjálfir frá eigin feðrum. Þá skiptir verulegu máli hvort feðrum er gefið færi á að taka fæðingarorlof en meðal fæðingarorlof feðra í heiminum er 6-10 dagar. Það sem þarf að gerast til að auka jafnrétti og þátttöku karla á þessum vettvangi er að lagaramminn sé þannig að þeim sé gert það mögulegt (t.d. lög um fæðingarorlof), fólki sé gert kleift að vinna fyrir sér og lenda ekki i fátæktargildru og síðast en alls ekki síst að vinna gegn staðalmyndum kynjanna, að það sé meðfætt hlutverk kvenna umfram karla að sinna heimili og börnum. Í Suður-Ameríku hafa nokkur lönd verið í herferð fyrir þátttöku feðra í mæðravernd og að þeir séu viðstaddir fæðingu barnanna sinna. Þá er það áhyggjuefni að á þeim slóðum er bakslag í réttindum kvenna ef þær verða fyrir ofbeldi og reyna að sækja réttlæti. Baráttan gegn frjálsum fóstureyðingum gengur einnig treglega en það er þó misjafnt eftir löndum í Suður-Ameríku. Í rannsókn sem var framkvæmd í fjórum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs kom í ljós að konur eru upp til hópa vel menntaðar en það skilar sér ekki á vinnumarkaði. Þannig verða konur að velja á milli fjölskyldulífs og þátttöku í atvinnulífinu. Flestir karlar vilja gjarnan taka meiri þátt í umönnun og uppeldi barnanna sinna en staðalmyndir kynjanna koma í veg fyrir það. Þorsteinn Víglundsson, jafnréttis- og félagsmálaráðherra tók þátt í umræðum á fundinum og lagði meðal annars áherslu á mikilvægi fæðingarorlofsins fyrir feður ekki síður en mæður. Ráðherra flutti einnig ræðu fyrir hönd Íslands á aðalvettvangi þingsins og lagði hann þar áherslu á að búa vel að innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði og jafnrétti kynjanna. Kom fram í ræðu ráðherra að Ísland er með hlutfallslega flesta innflytjendur á vinnumarkaði af öllum OECD ríkjunum. Umfjöllun um ræðuna má sjá hér: https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/36062
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag