Jafnrétti í 40 ár

Norðurlöndin hafa átt með sér samstarf um jafnréttismál í 40 ár og fögnuðu því með ráðstefnu í Reykjavík í gær (þriðjudaginn 26. ágúst). Meðal þátttakenda á ráðstefnunni voru Eygló Harðardóttir velferðarráðherra, frú Vigdís Finnbogadóttir og Margot Wallström, sem unnið hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna gegn ofbeldi gegn konum í stríðsátökum. Hún hefur einnig gegnt ráðherradómi í Svíþjóð. Á ráðstefnunni var kastljósinu beint að þeim árangri sem náðst hefur í jafnréttisbaráttunni síðustu 40 ár og hvaða áskoranir eru framundan. Vigdís nefndi hugmynd sem hún hefur oft kynnt til sögunnar áður; Að karlar með völd í heiminum komi saman og ræði jafnréttismál. Hún bætti því við að Angela Merkel mætti taka þátt líka. Jafnréttismál ættu ekki að vera málaflokkur kvenna eingöngu heldur þyrftu karlar ekki síður að sjá hag sinn í janfrétti. Hún fjallaði um útlitsdýrkunina sem gerði það að verkum að konur einbeittu sér frekar að útlitinu en framgangi í störfum eða lýðræðislegri þátttöku. Eygló beindi sjónum sínum að jafnrétti á vinnumarkaði og nefndi árangur fæðingarorlofslaganna. Allar voru þær sammála um að launaumunur kynjanna væri ein stærsta áskorunin. Til að vinna gegn honum þarf líka að vinna gegn staðalmyndum kynjanna þannig að bæði stelpur og strákar geti valið sér menntun og starf án þess að hefðbundin kynjahlutverk hafi þar áhrif. Margot Wallström hóf erindi sitt á að minnast á stöðu kvenna og barna á átakasvæðum; Á Gasa, í Írak, Sýrlandi og víðar. Hún fór yfir hvað Norðurlöndin gætu gert á alþjóðvettvangi til að berjast fyrir jafnrétti, t.d. að þrýsta á að kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði fullgildur sem víðast, þar á meðal í Bandaríkjunum. Fram kom á ráðstefnunni hvað fæðingarorlofslögin hafa haft gríðarleg áhrif og hvað það er mikill munur á því hvað karlar nýta af fæðingarorlofséttinum eftir löndum og lagasetningu. Íslenskir karlar taka mest fæðingarorlof allra karla á Norðurlöndunum. Þó fer talan lækkandi hér á landi eftir breytingar á lögum um sjóðinn. Ingólfur Gíslason fjallaði sérstaklega um þetta og gerði grein fyrir jákvæðum áhrifum þess að karlar taki fæðingarorlof, bæði á heilsu karla, tengsl við börnin sín og jafnrétti til langs tíma inni á heimilum. Það er því mikið unnið með aukinni þátttöku karla á fyrstu æviárum barna. Þó hefur aukin þátttaka karla í fæðingarorlofi ekki áhrif á kynbundinn launamun - gegn honum þarf að vinna með öðrum meðulum. Í umræðunni um hinn kynskipa vinnumarkað var fjallað um verkefni sem er í gangi í Noregi og kallast „Menn í umönnun“. Þar er atvinnulausum körlum boðin störf við umönnun tímabundið og virðist verkefnið gefa góða raun. Ráðstefnan var hluti af dagskrá tengdri formennsku Íslands í Norðurlandaráði en á dagskrá í haust er einnig ráðstefna um hlutastörf þar sem ný Norræn rannsókn verður kynnt.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag