Jákvæð gagnrýni og umræða leiðir til samstöðu og árangurs

Jákvæð gagnrýni er ávallt til góðs og til þess fallin að skapa ígrundaða umræðu ef rétt er við henni brugðist. Enska skáldið William Blake  gekk meira að segja svo langt að halda því fram að andstaða væri jafngildi sannrar vináttu þegar hann segir; „oposition is true friendship.“ Því er þetta rifjað upp hér að mikið virðist skorta á sanna vináttu í umræðunni hér á landi þar sem vantraustið ríður ekki við einteyming. Oftar en ekki er illa brugðist við málefnalegri gagnrýni og ómálefnalegar yfirlýsingar ná yfirhöndinni í umræðunni. Verkalýðshreyfingin hefur m.a. orðið fyrir barðinu á slíkri orðræðu, ef orðræðu skyldi kalla. Á fomannafundi Starfgreinasambandsins, sem haldinn var á Egilstöðum í síðustu viku, var skiptst á skoðunum og góðar umræður áttu sér stað m.a. um þann vanda sem að steðjar í samfélaginu. Komandi kjarasamningar voru einnig til umræðu, undirbúningur þeirra heima í héraði og væntanleg kröfugerð aðildarfélaganna. Mikil eining og samhugur var á fundinum. Fyrir liggur að Flóafélögin semji sér, en sambandið mun kalla eftir samningsumboði vegna hinna félaganna sextán. Samstaðan er okkar styrkur. Á formannafundinum var enginn fulltrúi mættur fyrir Verkalýðsfélagi Akraness. Formaður félagsins, hafði boðað forföll af persónulegum ástæðum en hvorki varaformaður né annar fulltrúi félagsins var til staðar. Er það miður að Veraklýðsfélag Akraness taki ekki þátt í umræðu um málefni félaganna á sameiginlegum vettvangi þegar mikið liggur við. Þetta er þeim mun lakara þegar formaður félagsins segist velta því fyrir sér á heimasíðu sinni, „hvort Verkalýðsfélag Akraness eigi í raun samleið með ASÍ og Starfsgreinasambandinu og segir koma til að álita að afturkalla aðildina að þessum samtökum.“ Vissulega má gagnrýna verkalýðshreyfinguna fyrir skoðanir sínar, en þeim er a.m.k. ætlað að endurspegla skoðanir félagsfunda aðildarfélaganna, trúnaðarmannafunda þeirra og vinnustaðafunda. Aðferð við val á forystu hreyfingarinnar og fulltrúa félagsmanna á ársfundi ASÍ  (230 manns) og þing Starfsgreinasambandsins (120 manns), þar sem sameiginleg stefna er mörkuð og forysta kosin, er tekin á félagslegan og lýðræðislegan hátt, hvað sem öðru líður. Þótt samstaða verkafólks sé í raun eina virka tækið til árangurs í kjarabaráttunni, má vel vera að Verkalýðsfélag Akraness finni sig ekki í þeirri stórfjölskyldu sem Starfsgreinasambandið er og ASÍ. Það væri miður.  
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)