Komandi kjaraviðræður í ljósi sögunnar

Enn á ný verður krafan sú  „að negla niður kjaraskerðinguna“ til þess að bjarga „afkomu þjóðarbúsins“.  - Útvegsmenn greiða sér arð í evrum meðan alþýðan er kúguð til kjaraskerðinga með ónýtri krónu.   Allar götur frá miðri síðustu öld hefur Ísland verið verðbólguland, þar sem sífelldum vandkvæðum var háð að halda verðgildi krónunnar sæmilega stöðugu. Reyndar má fara enn lengra aftur og segja sem svo að verðgildi krónunnar gagnvart t.d. dönsku krónunni  hafi hrunið úr einni á móti einni árið 1904 í eina danska á móti tvöþúsund íslenskum árið 2010 (20 nýkrónur eftir gjaldmiðlabreytinguna 1980/81). Kjarabaráttan á Íslandi er að þessu leytinu til mörkuð af gengisfellingum, verðbólgu og stöðugri varnarbaráttu til að viðhalda kaupmætti í fjandsamlegu umhverfi óstöðugrar krónu. Mál er að linni.   En víkjum nánar að sögunni.   Verðbólgan var um 13% að jafnaði á viðreisnarárunum 1959-1971. Lengi var markmið stjórnvalda að halda verðbólgu innan við 10% en eftir 1973 reyndist álíka erfitt að halda henni innan við 40%. Hún fór í um 50% 1974 og um 1980 stóð glíman við 60%.     Í sjávarútvegskreppunni í framhaldi af loðnuhruninu 1982 og samdrætti í  þorskveiðum var sjávarútvegnum bjargað enn eina ferðina með því að lækka gengið enn örar en svaraði til verðbólgunnar sem leiddi til þess að 3ja mánaða verðbólga vorið 1983 var komin vel yfir 100% á ársgrundvelli. Peningakerfi landsins var að hruni komið og til að koma í veg fyrir það varð að leysa verðbólguvandann á kostnað launþega. Vinstri menn og verkalýðssinnar höfðu sannanlega hafnað því  (1975) að verkalýðsstéttin bæri ábyrgð á „gróðastarfsemi einkaframtaksins sem kallast atvinnuvegir.“ Verkalýðsstéttin tæki ekki mark á viðbárum um „greiðslugetu atvinnuveganna“ eða að kauphækkun ógni „afkomu þjóðarbúsins“ – slíkt stafi af „yfirbyggingu, fjárfestingarbruðli, skipulagsleysi og óhófseyðslu einkaframtaksins.“  Var það ekki svo?   Verðbólgusamningar Þetta er rifjað upp hér vegna þess að komandi kjarasamningar minna óneitanlega á þá stöðu sem var, þegar kröfur um skeleggari kjarabaráttu einkenndu verkalýðshreyfinguna í þeirri erfiðu stöðu sem var á níunda áratugnum. Á formannafundi ASÍ vorið 1984 var ákveðið að ganga til skammtímasamnings, sem þýddi þá, að mati Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar, „að negla niður kjaraskerðinguna frá síðasta ári“. Þá fengust aðeins lágmarkslaun hækkuð og tryggingabætur til láglaunafólks, m.a. tekjutengdur barnabótaauki. Eftir ósköpin 1983 og enn eina fórn verkalýðshreyfingarinnar náðist loks að þrýsta verðbólgunni niður í 20-30% á ári. Það átti að vera sameiginlegt hagsmunamál fyrirtækja og launafólks að verðbólgan næðist niður, eins og núna. Það gerði hún líka, en laun drógust hastarlega aftur úr verðlaginu. Kaupmáttur launa sem hafði rýrnað meðan verðbólgan óx sem mest hrapaði á hálfu ári um fimmtung eða meira og árið 1985 hafði Dagsbrúnarkaupið rýrnað um 40% á sex árum. Verkafólk varð þá að sama skapi háð aukavinnu og yfirborgunum. Á þeim árum voru heimilin hins vegar langt  frá því eins skuldsett og  nú og atvinnuleysi var lítið. Menn komust af.   Þjóðarsáttin og framhaldið. Með þjóðarsáttinni 1990  samfara slaka í efnahagslífinu tókst loks að rjúfa vítahring verðbólgunnar. Hins vegar jókst atvinnuleysi svo mjög og varð þrálátara en nokkru sinni síðan í heimskreppunni. Atvinnuleysið var um 5%  árið 1992 en var komið í um 2,5% árið 2000. Frá árinu 1995 jókst kaupmáttur launa fram til ársins 2007 um 50%, en hefur nú rýrnað aftur um 16% eftir hrun þó ögn hafi hann aukist aftur í sumar og tekist hafi að verja kaupmátt lægstu launa. Sá bögull fylgir þó skammrifi að skuldir heimilanna eru í sögulegu hámarki og atvinnuleysið líka. Fjöldi heimila er þess vegna í verulegum vanda, vanda sem þekktist varla árið 1985. Atvinnuleysi er nú 8,7% sem hlutfall af vinnuafli, þótt Vinnumálastofnun skrái það einungis 7,5% sem stafar af því að hún telur ekki þá sem eiga ekki lengur bótarétt og verða að leita á náðir sveitarfélaga.   Hver er vandinn? Sá vandi sem við er að glíma í komandi kjarasamningum er því ekki nýr af nálinni. Atvinnurekendur koma til með að krefjast þess að tillit sé tekið til „greiðslugetu atvinnuveganna“ og að kauphækkanir ógni „afkomu þjóðarbúsins“  sem er reyndar í molum, vegna fjárfestingaæðis útrásarvíkinga, hvítflibbaglæpa og óhófseyðslu einkaframtaksins í skjóli afskiptaleysisstefnunnar sem hér réði ríkjum. Enn á ný verður krafan sú  „að negla niður kjaraskerðinguna“ til þess að bjarga „afkomu þjóðarbúsins“.   Því miður eru horfur á að þessi áróður fái hljómgrunn nema kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar verði þeim mun skeleggari. Það mun ekki skila okkur árangri til lengdar ef ekki verður uppstokkun í íslensku samfélagi og ný samfélagssýn út úr vandanum líti dagsins ljós. Kannski er von  með stjórnlagaþingi og nýjum kosningum. Það þarf vilja til að fara nýja leið.  Því miður er ekkert slíkt í nálægri augsýn.     Lítið traust - útvegsmenn gera fyrirtæki sín upp í evrum. Lítið sem ekkert traust ríkir í samfélaginu. Ekki er unnt að gera nýtt samkomulag við stjórnvöld þegar óljóst er hvort núverandi ríkisstjórn styðst við þingmeirihluta eða ekki. Alþingi nýtur einungis trausts 13% þjóðarinnar og stórnarandstaðan tekur flokkshagsmuni fram fyrir þjóðarhag. Boð berast utan úr Evrópu þar sem krafist er löndunarbanns á íslenskar fiskafurðir vegna makrílveiða Íslendinga úr sameiginlegum stofni við ESB ríki. Evrópskir lánveitendur neita að afgreiða lánabeiðnir til Íslands og Landsvirkjunar vegna þess að Icesave málið er enn óleyst. Útvegsmenn grípa til þess ráðs að gera fyrirtæki sín upp í evrum til að laga eiginfjárstöðuna og greiða sér út arð í evrum meðan alþýðan er kúguð til kjaraskerðinga með ónýtri krónu. Öll umræða um þjóðarsátt í slíku umhverfi er afar hæpin, þótt ekki sé dýpra tekið í árinni. Útflutningsgreinarnar skila hagnaði. Vinnslustöðin  í Vestmannaeyjum greiðir 18% í arð í evrum til sinna hluthafa. Aukning aflaverðmætis mældist tæplega 35% milli ára fyrstu þrjá mánuði ársins, svo einhverjir aurar ættu að vera í pottinum til skipta með verkafólki í þessum greinum í komandi kjarasamningum. Lágmarkslaun fiskvinnslufólks í Noregi er t.d. 123 norskar krónur á tímann. Það jafngildir í dag  um 2400 íslenskum krónum meðan byrjunarlaun hjá okkur eru tæpar 900 krónur á tímann. Er það framtíðarsýn að viðhalda þessum launamun milli landa og  gera Ísland að varanlegu láglaunasvæði ?     Hvað viljum við? Verkalýðshreyfingin hefur haldið úti þeirri pólitík að mikilvægt sé að sækja um aðild að ESB. Umsóknarferlið er nú komið af stað. Framtíðarsýn Íslands í ESB er þó enn í mikilli óvissu. Það verður að skapa hér efnahagslegan stöðugleika til langframa, m.a. með haldbærri mynt. Án aðildar að ESB og upptöku evru er vandséð annað en að Ísland verði áfram verðbólgu- og láglaunaland, þar sem sífelldum vandkvæðum verði háð að halda verðgildi krónunnar sæmilega stöðugu og verja kaupmátt launa.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur samþykkt að draga til baka umsókn Íslands að ESB, komist hann til valda. Verulegur ágreiningur virðist innan Vinstri grænna um að halda umsóknarferlinu áfram. Væntingar um erlendar fjárfestingar eða fjárfestingarlán til mikilvægra framkvæmda (Búðarhálsvirkjun, Orkuveitan, Helguvík ofl.) eru í óvissu vegna óleystra Icesavemála. Stöðugleikasáttmáli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins frá í júni 2009, sem verkalýðshreyfingin lagði mikla áherslu á að héldi, reyndist billegur pappír að mestu. Þessi efnahags- og pólitíska óvissa öll og skortur á trausti gerir umhverfi kjarasamninga lítt vænlegt til þjóðarsáttar, hvað þá að langtíma kjarasamningur og stöðugleiki sé í spilunum. Þvert á móti er hætta á að hver hugsi um sig til skemmri tíma, þó slíkt sé óheillaþrónun. Svo er stjórnmálamönnum fyrir að þakka.     (Í grein þessari er m.a. stuðst við sagnfræðirit Helga Skúla Kjartanssonar, Ísland á 20. öld, 2002, Sögufélgið, Reykjavík)    
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag