Mistækar aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks

Í dag kynntu fræðimenn á Norðurlöndum niðurstöður sínar um aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks en það hefur verið viðvarandi áhyggjuefni. Skemmst er frá því að segja að félagsleg staða ungs fólks virðist hafa meiri áhrif á möguleika þeirra til atvinnu en einstaka aðgerðir stjórnvalda sem hafa þó verið af ýmsum toga. Einhverjar stjórnvaldsaðgerðir virðast beinlínis hafa neikvæð áhrif. Neikvæð áhrif af atvinnuleysi ungs fólks getur varað allt lífið en margar rannsóknir gefa til kynna að fólk sem glímir ungt við atvinnuleysi lendir frekar í láglaunastörfum alla starfsævina og er í meiri hættu á að vera atvinnulaust aftur, en það á við um karla í ríkari mæli en konur. Þá hefur félagsleg staða fólks mikið að segja um hvort það komist í vinnu og óformleg sambönd inn á vinnumarkaðinn skipta höfuðmáli. Samböndin eru ýmist í gegnum foreldrana en þau geta líka verið í gegnum fyrri sumarstörf eða starfsnám. Stjórnvöld geta því haft áhrif á stöðu fólks á vinnumarkaði með því að fjölga sumarstöfum og liðka fyrir starfsnámi, en slíkt hefur einmitt verið gert hér á landi sem viðbrögð við atvinnuleysi. Svíar hafa reynt þá leið að lækka tryggingagjald atvinnurekenda ef þeir ráða fólk á aldurbilinu 19-25 ára en það virðist ekki hafa náð tilætluðum árangri og niðurstaða rannsóknar gefur til kynna að þetta sé afar dýr leið til að minnka atvinnuleysi ungs fólks. Þá hafa Danir reynt þá leið að auka aðhald við fólk í atvinnuleit, boða fólk á fleiri fundi og námskeið til að það haldi réttindum til bóta. Þetta hefur leitt til þess að margir hafa farið í nám sem er jákvætt en hins vegar hefur örorka meðal ungs fólks aukist líka sem afleiðing af þessum aðgerðum. Fáir virðast þó hafa skilað sér út á vinnumarkaðinn sem afleiðing af verkefninu. Ekki voru kynntar niðurstöður frá Íslandi að þessu sinni en rannsóknirnar verða birtar fljótlega í Nordic Economic Policy Review. Atvinnumálaráðherrar Norðurlandanna hittast þessa dagana til að ræða leiðir til úrbóta og miðla reynslu milli landanna.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag