Nóg um að vera í fræðslumálum í nóvember

Það má með sanni segja að nóg sé um að vera í fræðslumálum innan SGS um þessar mundir, en nú í nóvember stendur sambandið fyrir alls fimm námskeiðum og fræðslufundum af ýmsum toga. Síðastliðinn mánudag hélt SGS, í samstarfi við Samtök fiskvinnslustöðva (SF), námskeið vegna afkastahvetjandi launakerfa í fiskvinnslum, en námskeiðið sóttu bæði trúnaðarmenn fiskvinnslufyrirtækja og starfsmenn aðildarfélaga sambandsins. Á námskeiðinu var farið nokkuð ýtarlega yfir sögu og uppbyggingu á þeim afkastahvetjandi launakerfum sem notuð eru í fiskvinnslum landsins. Sambærilegt námskeið verður haldið á Akureyri fimmtudaginn 13. nóvember næstkomandi. Þess má geta að kennslan á námskeiðunum er í höndum Braga Bergsveinssonar, fyrrverandi sérfræðings hjá SF. Á morgun, 6. nóvember, verður haldið námskeið um starfsmatskerfið fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa félaganna, en brýnt þykir að auka þekkingu á starfsmatinu innan sambandsins. Á námskeiðinu verður starfsmatskerfið kynnt fyrir þátttakendum, hvaða tilgangi það á að þjóna og hvernig er það uppsett. Þá verður farið í hvernig lesa eigi út úr kerfinu, hvert hlutverk stéttarfélaganna eigi að vera í starfsmatskerfinu og fjallað um mikilvægi starfslýsinga. Námskeiðið verður haldið í Guðrúnartúni 1 á milli kl. 13:00 og 16:00. Þann 10. nóvember munu félagsliðar innan SGS hittast á fræðslufundi á Akureyri, nánar tiltekið í húsakynnum Einingar-Iðju við Skipagötu 14. Dagskrá fundarins er þétt og fjölbreytt, en meðal dagskrárliða má nefna erindi um stöðu félagsliða á vinnumarkaði, umfjöllun um gildi félagsliðamenntunar fyrir umönnunarstörf og vinnumarkaðinn og erindi um sálræn áhrif streitu á líkamlega líðan. Nokkur fjöldi félagsliða af landinu öllu hafa boðað komu sína og má búast við öflugum fundi og miklum umræðum. Þann 14. nóvember nk. hefur verið boðað til samráðsfundar með fulltrúa SGS í starfsgreinaráðum, þ.e. aðalmanna og varamanna SGS í ráðunum. Sambærilegur fundur var haldinn síðastliðið vor og var þá ákveðið að gera þyrfti slíka fundi að reglulegum viðburði. Á fundinum verður farið yfir verkefni í hverju starfsgreinaráði fyrir sig og rætt í sameiningu hvernig ráðin nýtast. Fundurinn fer fram í Guðrúnartúni 1 á milli kl. 11:00 og 12:00.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)