Norræn ráðstefna gegn staðalmyndum og kynferðislegri áreitni innan hótel-, veitinga- og ferðaþjónustunnar

Þann 8. júní næstkomandi stendur Starfsgreinasamband Íslands ásamt systursamtökum á Norðurlöndunum fyrir norrænni ráðstefnu gegn staðalmyndum og kynferðislegri áreitni innan hótel-, veitinga- og ferðaþjónustunnar. Ráðstefnan fer fram á Hótel Natura og má skrá sig til leiks fyrir 10. apríl 2015. Tilgangur ráðstefnunnar er að miðla upplýsingum og aðferðum til að auka vitund og vinna gegn staðalmyndum og kynferðislegri áreitni. Ráðstefnan er opin öllum en sérstaklega er óskað eftir þátttöku starfsfólks innan ferðaþjónustunnar, trúnaðarmanna, starfsfólks stéttarfélaga og atvinnurekenda. Á ráðstefnunni verða kynnt dæmi úr hinu daglega lífi, rannsóknir á Norðurlöndunum verða reifaðar og hvernig verkalýðsfélög hafa brugðist við vandanum. Þess er vænst að niðurstöður ráðstefnunnar verði kynntar víða, meðal aðila vinnumarkaðarins, meðal stjórnvalda og almennings. Norðurlöndin eru þekkt fyrir að vera í fararbroddi í jafnréttisumræðunni og vinnuvernd og hafa markaðssett sig í sameiningu sem ákjósanlegan kost fyrir ferðamenn. Ferðaþjónusta hefur aukist um öll Norðurlönd og hefur kastljósi verkalýðsfélaga í auknum mæli verið beint að vinnuaðstæðum og öryggi starfsfólks á vinnustöðum tengdum ferðaþjónustunni. Kannanir meðal starfsfólks hafa sýnt að áreitni er áhyggjuefni innan ferðaþjónustunnar og nauðsynlegt að setja baráttuna gegn slíku á dagskrá, auka fræðslu um vandann og gera áætlanir um hvernig verði brugðist við honum. Ráðstefnan er liður í þessu og vonandi upphafið að nánara samstarfi verkalýðsfélaga, stjórnvalda og atvinnurekenda til að auka öryggi starfsfólks. Til að auka umræðu og þekkingu á sviðinu hefur fjölda fyrirlesara með sérfræðiþekkingu á sviðinu verið boðið til landsins og munu þeir miðla af kunnáttu sinni. Vinnuskjöl og niðurstöður ráðstefnunnar verða sendar til fjölmiðla, aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og fleiri í kjölfarið. Kynningarbréf, dagskrá og skráningareyðublað má nálgast hér: Kynning og skráning Norræna ráðstefnu 8 júní
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag