Nýr kjarasamningur í Danmörku

Kjarasamningar í Danmörku renna út 1. mars næstkomandi og samkvæmt skipulagi þá er skrifað undir nýja samninga áður en þeir renna út. Alls eru um 600 samningar lausir á næstunni og ganga framleiðslugreinarnar fyrstar að samningaborðinu. Þær undirrituðu þriggja ára samning þann 12. febrúar síðastliðinn og setur sá samningur viðmið fyrir alla hina samningana. Fulltrúar Starfsgreinasambandsins heimsóttu systursamtök í Danmörku í janúar og kynntust kröfugerðinni og vinnulagi við samningagerðina. Hinir nýundirrituðu samningar fela meðal annars í sér: Launahækkanir Launahækkanir eru á bilinu 1,6-1,8% á ári (2 Dkk á tímann ofan á taxta) en þessu til viðbótar kemur hækkun upp á 0,4-0,6%  á ári úr 2% í 4% á tímabilinu. Hægt er að semja um ráðstöfun viðbótarinnar á hverjum vinnustað fyrir sig. Þannig er valkvætt hvort umframhækkunin er notuð í lífeyri, lengt orlof, endurmenntun, fæðingarorlof eða launahækkanir. Þá er verið að auka margvísleg réttindi í samningunum og félagar okkar eru mjög ánægðir með samkomulagið og segja það mun betra en þeir samningar sem gerðir hafa verið frá hruni. Kostnaðarmat verkalýðshreyfingarinnar er heildarhækkun um 2,75% til 3% á ári næstu þrjú ár.  Önnur réttindi: Aukið fjármagn er sett í endurmenntun og hafa félagsmenn svigrúm til allt að 60 daga endurmenntunar á 85% launum innan þriggja ára. Trúnaðarmenn eru styrktir í sínum störfum með auknu aðgengi að upplýsingum og kröfum um samráð. Vinnutími: Ein krafa atvinnurekenda í viðræðunum var að auka vinnutímann en þeirri kröfu var alfarið hafnað. Ef ekki næst samkomulag um vinnutíma má innleiða reglur um hámark 5 yfirvinnutíma á viku, eða einn yfirvinnutíma á dag. Þessi yfirvinna skal tekin út í fríi innan 12 mánaða. Aukið orlof: Auk þess að geta ráðstafað kaupaukanum í aukið orlof þá er staðfest heimild starfsfólks sem nálgast eftirlaunaaldur til að nýta hluta af lífeyrissjóðnum sínum í auka frídaga, að hámarki 32 daga á ári. Þessi heimild gagnast þeim sem fara á eftirlaun innan fimm ára en eftirlaunaaldurinn er 67 ára en hækkar í 68 ára árið 2030. Foreldrar barna undir 14 ára aldurs fá auka tvo daga í frí á ári. Næstu skref: Nú er verkefni allra annarra atvinnugreina að ná sambærilegum samningum og þessum fyrir 1. mars þegar samningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út. Þegar því er lokið fara samningarnir í sameiginlega atkvæðagreiðslu til allra félagsmanna innan heildarsamtaka á almennum vinnumarkaði LO (systursamtök ASÍ í Danmörku). Talið er að atkvæðagreiðslan geti farið af stað um miðjan mars.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag