Samtök atvinnulífsins setja eigin hugmyndafræði í uppnám

Fyrsti fundur samninganefndar Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins, eftir að kjaradeilunni var vísað til Ríkissáttasemjara þann 16. þ.m., var haldinn hjá sáttasemjara í morgun. Ljóst er að mikið ber í milli samningsaðila. Samtök atvinnulífsins lýstu þeirri kröfu sinni að ekki yrði samið á almennum vinnumarkaði nema gengið væri fyrst frá málefnum sjávarútvegsins innan ríkisstjórnarinnar. Þessi krafa SA var ekki til umræðu þegar samningsaðilar hittust þann 7. janúar. Þá óskaði SA eftir því við Starfsgreinasambandið að samið yrði um samræmda launastefnu til 3ja ára, m.a. til að tryggja stöðugleika og atvinnuppbyggingu hér á landi. Þeim sjónarmiðum svaraði samninganefnd SGS á jákvæðum nótum og því kemur það verulega á óvart að SA geri nú kröfu um að blanda málefnum sjávarútvegsins inn í kjaraviðræðurnar þegar viðræðurnar virtust vera að falla í farveg. Krafa SA núna verður ekki túlkuð öðruvísi en svo að Samtök atvinnulífsins hafni sinni eigin hugmyndafræði. Starfsgreinasambandið stendur við kröfur sínar um tvöhundruð þúsund króna lágmarkslaun fyrir dagvinnu og almennar hækkanir á launatöxtum sambandsins. Þar með er deilan komin í hnút og engu líkara en grípa þurfi til aðgerða til að knýja á um gerð kjarasamnings ef afstaða SA breytist ekki. Starfsgreinasambandið ítrekar enn mikilvægi þess að kjarasamningarnir verði vegvísir út úr þeim vanda sem við er að glíma en þá verða Samtök atvinnulífsins að sýna ábyrgð gagnvart launafólki og virða það viðlits án þess að málefnum sjávarútvegsins sé blandað í þá umræðu. Næsti fundur samningsaðila er boðaður hjá Ríkissáttasemjara þann 2. febrúar n.k.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag