Skuld ríkisins við launafólk

Í síðustu kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum, sem undirritaðir voru í desember 2013, var gerð tilraun til að vinna gegn verðbólgu. Í staðinn sætti launafólk sig við minni launahækkanir en ella. Þessi aðferð var umdeild og höfðu ekki allir trú á henni eins og sást þegar samningarnir voru felldir í stórum stíl. Þeir samningar sem voru á endanum samþykktir byggðust þó á sömu hugmyndinni, að besta kjarabótin fyrir launafólk væri að stemma stigu við verðbólgu. Eitt af því sem skipti máli við gerð kjarasamninganna var að ríkið færi í þessa vegferð með aðilum vinnumarkaðarins. Í tengslum við kjarasamningana barst aðilum vinnumarkaðarins opið bréf frá ríkisstjórninni þar sem hún gerði grein fyrir framlagi sínu, meðal annars endurskoðun á gjöldum og að gjaldskrárhækkanir yrðu innan við 2,5%. Þetta bréf skipti máli við frágang kjarasamninganna. Það leið ekki langur tími frá því að kjarasamningarnir voru undirritaðir þangað til heilbrigðisráðherra fyrirskipaði verulega hækkun á komugjöldum heilsugæslustöðva, um allt að 15-20% (reyndar tóku gjaldskrárhækkanirnar gildi tíu dögum eftir undirritun samninganna). Nú berast fréttir af því að komugjöld og rannsóknargjöld í heilbrigðisþjónustunni hafi enn hækkað um 5% í júlí. Skattalækkanirnar sem gerðar voru í tengslum við kjarasamningana kom lágtekjuhópum síst til góða en voru helst sniðnar að milli- og hátekjufólki. Þriðja atriðið, sem er meginefni þessa pistils, eru gjaldskrárlækkanir á eldsneyti, tóbak og áfengi en þegar ríkisstjórnin lagði til breytingar í þá átt var það sett í skýrt samhengi við kjarasamningana. Orðrétt segir í athugasemdum við frumvarpið um gjaldskrárlækkanir: „Þó svo að samþykkt kjarasamninga hafi ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita sér fyrir lækkun á gjaldskrám eldsneytisgjalda og áfengis- og tóbaksgjalda í samræmi við fyrri yfirlýsingu og raunar umfram almennt verðbólgumarkmið upp á 2,5%, með lækkun þessara gjalda úr 3% í 2% með þessu frumvarpi.“ Það er þrennt sem ber að staldra við hér: Í fyrsta lagi þá kemur frumvarpið ekki fram fyrr en tæpum tveimur mánuðum eftir undirritun kjarasamninga og er ekki afgreitt frá Alþingi fyrr en 16. maí. Gjaldskrárlækkanirnar gilda frá 1. júní, nær hálfu ári eftir að kjarasamningar voru undirritaðir. Ríkið var ekki að flýta sér að koma gjaldskrárlækkunum til launafólks. Í öðru lagi þá benti Starfsgreinasambandið (og fleiri aðilar) á það í umsögn um frumvarpið að nær væri að lækka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu heldur en að lækka gjöld á áfengi, tóbak og eldsneyti. Óvíst er hvernig lækkanir á einstaka vörur skilar sér á meðan lægri gjaldskrár skila sér beint í vasa þeirra sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu. Sýnt er að fólk veigrar sér orðið við því að nýta heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar og því kominn tími til að endurskoða gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Slík lækkun myndi líka skila sér beint inn í vísitölu og þar með til lækkunar verðbólgu og að lokum í lækkun verðtryggðra lána. Í þriðja lagi er nú komið í ljós að þær lækkanir sem komu eftir dúk og disk frá ríkinu hafa ekki skilað sér í vasa launafólks. Neytendasamtökin könnuðu verð á tóbaki eftir breytinguna og kom í ljós að margar verslanir sem selja tóbak höfðu ekki hugmynd um lækkunina og höfðu ekki lækkað hjá sér vöruverð. Í grein á heimasíðu Neytendasamtakanna segir orðrétt: „Samkvæmt athugun Neytendasamtakanna voru það því aðeins tveir aðilar af þeim tíu sem svöruðu sem lækkuðu verð á sama tíma og verðlækkun ÁTVR átti sér stað. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að þegar ríkið dregur úr álögum sínum á einstökum vörum skili það sér til neytenda, en ekki smásala, sér í lagi þegar tilgangurinn er að draga úr verðlagsáhrifum og halda þeim innan verðbólgumarkmiða. Er því óhjákvæmilegt að álykta sem svo að þessi lagabreyting hafi ekki skilað tilætluðum árangri hvað þetta varðar. Því fylgja svo (jafnvel þó hér sé um tiltölulega litla lækkun á afar hættulegri vöru að ræða) víxlunaráhrif á verðtryggð lán og þar með almenna afkomu heimilanna.“ Samandregið má því segja að framlag ríkisins til kjarasamninganna hafi verið að hækka gjaldskrár í heilbrigðiskerfinu, fyrst í kjölfar samningann og svo aftur í sumar. Sú lækkun sem kom seint og um síðir á áfengi, tóbak og eldsneyti skilaði sér hins vegar illa til launafólks og virðist að hluta til hafa lent í vasa smásala. Ríkið stóð ekki við sitt og tilefni er til að spyrja: Hvað skuldar ríkið launafólki mikið vegna þeirra loforða sem gefin voru við gerð síðustu kjarasamninga? Þessi spurning og fleiri verða til umræðu í aðdraganda næstu kjarasamninga en viðræður vegna þeirra hefjast strax í haust.  
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag