Starfsfólk í matvælaframleiðslu á Norðurlöndum bera saman bækur

NU-LIVS (Heildarsamtök stéttarfélaga á Norðurlöndunum á sviði matvælagreina) héldu ráðstefnu um kjaramál í Stokkhólmi 14.-16. nóvember síðastliðinn. Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar er stjórnarkona í samtökunum en auk hennar sótti Drífa Snædal framkvæmdastjóri fundinn fyrir hönd SGS. Tilgangur ráðstefnunnar var að greina sameiginleg vandamál í matvælaframleiðslugreinum og finna leiðir til að vinna úr þeim. Ljóst var að Ísland sker sig töluvert úr hópnum þar sem samkeppni í matvælaframleislu er ekki jafn mikil og við búum við öðruvísi lagaumhverfi sem gerir til dæmis starfsmannaleigum erfiðara fyrir að skjóta rótum í atvinnulífinu. Önnur Norðurlönd greindu frá þeim vanda sem skapast þegar fáir ráðandi aðilar eru á markaðnum, bæði í matvælaframleiðslunni og í smávöruversluninni. Framleiðslufyrirtækin færa framleiðslu sína þangað sem ódýrt vinnuafl er að hafa til nágrannalandanna; Rússlands, Eystrasaltsríkjanna og Póllands. Á saman tíma heimta verslanakeðjurnar að vörur séu framleiddar fyrir ákveðið verð og ef því er ekki mætt færast viðskiptin annað. Ægivald stórfyrirtækja er því mikið þegar auðvelt er að færa sig úr stað í framleiðslunni og ráðandi markaðshlutur getur þrýst verðinu niður. Annar vandi sem var gegnumgangandi í framsögu og umræðum fulltrúa Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur var ógnandi hlutur starfsmannaleiga á vinnumarkaðnum. Starfsmenn sem vinna hjá slíkum leigum eru yfirleitt ekki í stéttarfélögum (um fjórðungur í Svíþjóð) og fá jafnvel ekki greitt samkvæmt kjarasamningum. Noregur innleiðir um áramótin tilskipun Evrópusambandsins um starfsmannaleigur og önnur lönd eru í slíku ferli. Fyrirtæki freistast til að ráða mannskap í gegnum starfsmannaleigur til að komast hjá þeim skyldum sem ráðningasamband hefur í för með sér. Að einhverju leiti er það til að mæta álagspunktum en áhyggjur stéttarfélaga snúa að þeirri þróun að sífellt hærra hlutfall starfsmanna vinna í gegnum starfsmannaleigur. Í lok ráðstefnunnar var sannmælst um aukið samstarf trúnaðarmanna og stéttarfélaga og greiðari upplýsingamiðlum um fyrirtæki og starfsmannaleigur sem starfa í fleiri en einu landi. Þá var samþykkt svohljóðandi ályktun:   Verslunarkeðjur með ógnarvald yfir matvælaiðnaðinum Fulltrúar á samnorrænni ráðstefnu fólks innan matvælaiðnaðarins eru sammála um að þrýstingur stórra verslanakeðja á framleiðslufyririrtæki er ógn við framleiðslu matvæla á Norðurlöndum. Matvælaiðnaðurinn þarfnast rannsókna til frekari vöruþróunar og aukinnar framleiðni og sömuleiðis þarf að auka menntun starfsfólks í faginu. Því miður verður þrýstingur verslanakeðja á að halda framleiðsluverðinu í lágmarki til þess að fjármagn til menntunar og þróunar er af skornum skammti en arðurinn virðist fyrst og fremst fara til verlananna. Sú þróun að verslanakeðjur merki sjálfum sér vörurnar verður til þess að neytendur vita ekki hver framleiddi vöruna eða hvar hún er framleidd. Þetta verður til þess að auðveldara er að flytja framleiðsluna úr landi til svæða þar sem launin eru lægri og framleiðslan ódýrari. Því miður er Norrænt  neytendasamstarf sem getur varpað ljósi á samhengi framleiðsu, neyslu og umhverfis ekki til staðar. Við krefjumst þess að verlanakeðjurnar hætti að beita þrýstingi til lækkunar framleiðsluverðs svo vernda megi framleiðsluna á Norðurlöndum. Ef verslanakeðjurnar taka sig ekki á gætu einstaka ríki þurft að axla ábyrgð á að snúa þróuninni við. Þá krefjumst við þess að vörurnar séu vel merktar uppruna svo neytendur geti sjálfir tekið upplýsta ákvörðun um kaup á einstaka vörum. Við myndum einnig fagna sterkari samstöðu neytendasamtaka á Norðurlöndum. Norrænir starfsmenn í matvælaframleiðslu munu fylgjast vel með þróuninni næstu ár.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)