Starfsgreinasamband Íslands 10 ára

Þann 13. október árið 2000 var Starfsgreinasamband Íslands stofnað. Stofnaðilar voru fimmtíu félög verkafólks. Við stofnunina sameinuðust Verkamannasamband Íslands, Landssamband iðnverkafólks og Samband starfsfólks í veitinga- og gistihúsum. Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins eru nítján í dag. Það er hlutverk sambandsins að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum og standa vörð um áunnin réttindi. Einnig að vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks. Frelsi - jafnrétti – bræðralag, þessi þrjú orð saman mynda hinn siðferðilega grunn í hugsjónum íslenskrar og alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar á öllum sviðum mannlífsins. Þessi þrjú orð eru samtvinnuð í verkalýðsbaráttunni þar sem orðið bræðralag merkir annað en bara samúð. Verkalýðshreyfingin lætur sér ekki nægja samúð með lítilmagnanum – hún stendur einfaldlega með honum, finnur til samkenndar. Og hugtökin jafnrétti og jöfnuður hafa pólitískan kraft vegna þess að þau tjá viljann til að skipta upp á nýtt, jafna hlutdeildina. Þann kraft þurfum við að nýta betur. Ólíkt frelsinu og bræðralaginu er hægt að mæla jafnréttið eða jöfnuðinn. Og jafnréttið er forsenda frelsis. Enginn getur verið frjáls sem er órétti beittur og enginn er heldur frjáls meðan aðrir eru órétti beittir. Skorturinn á frelsi og  þráin eftir frelsi var drifkraftur verkalýðshreyfingarinnar í árdaga. En það var ekki frelsi einstaklingsins til að gæta eigin hagsmuna heldur það frelsi sem aðeins verður sótt og notið með öðrum. Frelsi sem fylgir því að allir geti valið sér leiðir í lífinu án þess að vera hindraðir af félagslegri stöðu, uppruna, efnahag eða kynferði. Í því kreppuástandi sem nú ríkir er þörf á að rifja upp merkinu þessara orða og í samhengi þess sem við viljum standa fyrir sem öflug hreyfing og traustsins verð. Starfsgreinasamband Íslands sendir aðildarfélögum sínum og íslensku verkafólki baráttukveðjur í tilefni dagsins.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag