Starfsgreinasamband Íslands höfðar mál gegn Vísi hf.

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur höfðað mál f.h. Framsýnar stéttarfélags gegn Vísi hf. fyrir Félagsdómi þar sem þess er krafist að viðurkennt verði að rekstrarstöðvun sem Vísir hf. boðaði þann 1. apríl sl. hafi falið í sér brot á kjarasamningi SGS og SA. Hin boðaða rekstrarstöðvun var sögð vera vegna hráefnisskorts og því var starfsfólk sent heim án launa eins og tilvitnað kjarasamningsákvæði heimilar. Starfsgreinasambandið telur að ekki hafi verið forsendur til þess að beita viðkomandi ákvæði kjarasamningsins, sem á við ef um hráefnisskort er að ræða, enda sé stöðvun vinnslu Vísis hf. að rekja til niðurlagningar starfsstöðvar en ekki hráefnisskorts. Vísir hf. átti byrjun maí 2014 óveidd ríflega 2000 tonn þorskígilda skv. upplýsingum Fiskistofu. Enginn raunverulegur hráefnisskortur var því til staðar sem réttlætti lokun bolfiskvinnslu á Húsavík. Þrátt fyrir það hafi Vísir hf. litið svo á að fyrirtækinu væri heimilt að hætta launagreiðslum til starfsmanna á grundvelli þessa ákvæðis vegna flutnings vinnslunnar. Þessu er Starfsgreinasamband Íslands ósammála og telur brotið gegn kjarasamningi aðila. Einnig sé vegið að hagsmunum hlutaðeigandi félagsmanna sem verði af réttumætum launagreiðslum auk þess sem réttindi þeirra til atvinnuleysisbóta síðar meir munu skerðast, að ótalinni þeirri óvissu sem þeir búi við varðandi atvinnu sína. Heimild: Alþýðusamband Íslands
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag