Sterk grasrót er nauðsynleg

Í félagsfréttum Stéttarfélags Vesturlands, sem gefnar voru út í desember s.l., birtistmeðfylgjandi grein eftir Kristján Bragason, fyrrverandi framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. Síðustu ár hefur verið vaxandi umræða í samfélaginu um þörfina fyrir endurnýjun, breytingar og nýjar nálganir að viðfangsefnum hvort heldur er að ræða í stjórnmálum eða innan helstu valdastofnanna þjóðfélagsins. Verkalýðshreyfingin hefur ekki farið varhluta af þessari umræðu og hafa verið uppi háværar raddir um að nýtt fólk vanti til forystu. Ímynd og ásýnd verkalýðshreyfingarinnar meðal félagsmanna hefur oft verið betri en hún er í dag. Hreyfingin er gagnrýnd fyrir að að vera íhaldssöm og gamaldags og þá hefur valdabarátta og sundurleitni innan hreyfingarinnar ekki hjálpað til á síðustu misserum. Spurningin er hvort þessi gagnrýni sé réttmæt eða þarf hreyfingin kannski að vera öflugari í að koma skilaboðum sínum á framfæri við almenning og félagsmenn? Verkalýðshreyfingin hefur lengstum verið róttækt afl í þágu samfélagslegra breytinga og umbóta. Í sameiningu hefur launafólk m.a. barist fyrir bættum kjörum, aðbúnaði og réttindum í kjarasamningum, jafnrétti kynjanna, uppbyggingu almannatrygginga, lífeyrisréttindum, atvinnuleysisbótum og fæðingarorlofi. Allt eru þetta réttindi sem þykja sjálfsögð í dag, en útheimtu blóð, svita og tár hjá því launafólki sem barðist fyrir þessum réttarbótum. Það er ljóst að gildi verkalýðshreyfingarinnar sem byggja á félagslegum jöfnuði, samtryggingu og velferð fyrir alla eru enn í fullu gildi.Vandamálið er að hagsmunir mismunandi hópa launafólks fara ekki alltaf saman.Áherslur hagsmunasamtaka á borð við verklýðshreyfinguna ráðast gjarnan af virkni þátttakenda í störfum slíkra samtaka. Þannig endurspegla stjórnir, trúnaðarmannaráð og samninganefndir stéttarfélaga sjaldan þann mikla fjölbreytileika sem má finna í samsetningu félagsmanna þeirra. Forystusveit verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi samanstendur að stórum hluta af miðaldra karlmönnum og of fáum konum. Ungt fólk og erlendir félagsmenn eru sjaldséð í stjórnum og samninganefndum stéttarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands, þrátt fyrir að stór hluti félaga sé yngri en 35 ára eða með erlent ríkisfang. Þó ég efist ekki um heilindi og vilja þeirra sem eru í forystu verkalýðshreyfingarinnar til að berjast fyrir bættum hag allra félaga, er ljóst að hagsmunir ólíkra hópa fara ekki ætíð saman. Konur geta haft aðrar áherslur en karlar. Ungt launafólk hefur aðra hagsmuni en launafólk með langa starfsreynslu. Þetta kynslóðabil má meðal annars sjá í ólíkri eignastöðu, sem m.a. hefur skilað sér í ólíkri afstöðu kynslóða til verðtryggingar, lífeyriskerfisins og húsnæðismála. Lítil þátttaka ungs fólks í störfum verkalýðshreyfingarinnar þýðir að oftar en ekki vantar rödd þessa hóps til að koma fram hagsmunum þeirra og þörfum.  Að mínu áliti verður það eitt af mikilvægustu verkefnum hreyfingarinnar á næstu árum að vinna að sátt á milli kynslóða um hvernig samfélagi við viljum búa í. Þetta gerist ekki nema með aukinni þátttöku og virkni félagsmanna í stéttarfélögum víðsvegar um landið. Íslensk verkalýðshreyfing þarf sem fyrst að ráðast í markvissa greiningu á því hvaða leiðir séu bestar til að styrkja grasrótina, með sérstakri áherslu á að efla félagsvitund ungs fólks. Slíkt mun skila sér í endurnýjun á forystu, stefnu og áherslum verkalýðshreyfingarinnar. Þessi orð mín þýða þó ekki að verkalýðshreyfingin hafi ekki gert neitt síðustu misseri til að virkja ungt fólkt til starfa. Innan Alþýðusambandsins hefur verið stofnaður nýr öflugur vettvangur fyrir ungt fólk, ASÍ-UNG, þar sem ungu launafólki gefst tækifæri til að ræða hagsmunamál sín og boðleiðir eru tryggðar svo að rödd þessa hóps heyrist í störfum og stefnumótun hreyfingarinnar.  Innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hefur verið talsverð umræða um að tryggja betur aðkomu ungra félagsmanna að stjórnkerfi hreyfingarinnar, s.s. með því að hafa sérstakan fulltrúa ungs fólks í stjórnum stéttarfélaga og bjóða ungum félögum að sitja þing, málstofur og fundi á vegum hreyfingarinnar. Þá hefur verið reynt að virkja ungt fólk til þátttöku í gegnum kynningar til skólafólks á störfum og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar og miðla upplýsingum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Engu að síður er ljóst að hreyfingin þarf að gera miklu meira til að virkja ungt fólk til þátttöku. Ég myndi vilja sjá Starfsgreinasambandið halda reglulegar ungmennaráðstefnur þar sem ungt fólk úr ólíkum starfsgreinum frá öllum landshornum hittist til að ræða hagsmunamál sín. Þá tel ég að hreyfingin þurfi að nota aðferðir á borð við jafningjafræðslu til að kynna  réttindi og skyldur og starfsemi stéttarfélaga. Stéttarfélög verða að tileinka sér betur netið við miðlun upplýsinga til félagsmanna, s.s. gegnum heimasíður félaganna og samfélagsmiðla. Að lokum tel ég að hreyfingin þurfi að styrkja trúnaðarmannakerfið og kanna hvernig mögulegt sé að stjórnir og samninganefndir stéttarfélaga endurspegli betur samsetningu félagsskránna. Það er trú mín að verkalýðshreyfingin geti á nýjan leik orðið öflugt hreyfiafl í íslensku samfélagi, ef henni tekst að styrkja grasrótina með aukinni þátttöku og virkni ungs fólks í störfum hennar.   Kristján Bragason, fráfarandi framkvæmdastjóri SGS.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)