Stöðugur gjaldmiðill. Ábyrg hagstjórn. Traust og trúverðugleiki.

Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ. Það vigtar því þungt í þeirri umræðu sem framundan er um efnahags- og kjaramál í tengslum við komandi kjarasamninga. Á skrifstofu sambandins er nú unnið að sameiginlegri kröfugerð vegna kjaraviðræðna sambandsins við Samtök atvinnulífsins, Bændasamtök Íslands, Landssamband smábátaeigenda, Launanefnd sveitarfélaga og ríkið. Það liggur enn ekki fyrir hvort, né hvaða málefni verða á sameiginlegu borði ASÍ gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum. Hagur rúmlega fimmtíu þúsund félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, í ýmsum atvinnugreinum liggur í hins vegar í því að samstaða náist um fyrirsjáanlegar kjarabætur og atvinnuuppbyggingu, bæði til skamms tíma en ekki síður til lengri tíma litið, - að hér takist að ná sátt um víðtæka endurreins atvinnulífsins, efnahags- og kjaramál á borði en ekki bara í orði. Samstaða er okkar styrkur og um þann styrk eru menn vel meðvitaðir innan Starfsgreinasambandsins. Stöðugur gjaldmiðill,  ábyrg hagstjórn, traust og trúverðugleiki eru lykilorð í ályktun ársfundar Alþýðusambandsins frá í síðustu viku um efnahags- og kjaramál. Þar er fjallað um þá vegferð sem framundan er við endurreins efnahagslífsins. Alþingi og ríkisstjórn landsins verða að taka þessi orð til sín í fyllstu alvöru. „Efnahagsáfall þjóðarinnar er afleiðing óábyrgrar hagstjórnar og áralangs óstöðugleika“ segir í ályktun fundarins. Síðan segir; „Fundurinn krefst þess að íslenskum heimilum og fyrirtækjum verði tryggður sami efnahagslegi stöðugleiki og er í þeim löndum sem best standa og við viljum bera okkur saman við. Forsendur þess eru stöðugur gjaldmiðill, ábyrg hagstjórn og traust“ en skortur á trausti er einmitt ein mesta meinsemdin sem þjakar samfélagið í dag. Alþýðusambandið telur mikilvægt „að efnt verði til viðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði við það verkefni að efla atvinnustigið og auka og tryggja kaupmátt launafólks.“ Enn og aftur er forsendan fyrir víðtækri sátt og samvinnu sú að traust ríki milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og að samstaða náist um samræmda launastefnu sem feli í sér almennar launahækkanir, jöfnun kjara og að lífeyrisréttindi allra landsmanna verði jöfnuð. Með þessari stefnumörkun ársfundar ASÍ hefur Alýðusambandið lagt spilin á borðið, komið fram af ábyrgð og sagt; já, við viljum samstarf og samvinnu til að endurreisn efnahagslífsins nái fram að ganga, en þá verða aðrir einnig að mæta til leiks í trúverðugleika og af einurð. Það er forgangsverkefni að vinna bug á atvinnuleysinu og að almennt launafólk endurheimti fyrri lífskjör. „Það verður ekki gert nema með aukinni verðmætasköpun. Því þarf að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem til staðar eru, m.a. í vistvænni orkunýtingu, mannauði og velferðar- og menntakerfi sem hjálpar okkur að takast á við erfiðleikana. Ýta verður undir nýsköpun, styðja við sprotafyrirtæki, auðvelda erlenda fjárfestingu, auka fullvinnslu innanlands og bæta markaðssetningu erlendis á afurðum, þjónustu, og hugviti,“ svo notuð séu orð ársfundar ASÍ.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag