Stýrivaxtahækkun vekur furðu

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að hækka vexti bankans um 0,25% í morgun vekur furðu Starfsgreinasambands Íslands. Seðlabankinn telur þessa hækkun réttlætanlega í ljósi þess góða efnahagsbata sem fram kemur í hagtölum bankans, en bendir þó á að óvissa hafi aukist. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði nokkru meiri í ár og á næsta ári en spáð var í ágúst og að verðbólga verði heldur minni á næstu misserum sakir  sterkara gengis krónunnar og minni innfluttrar verðbólgu, segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Þessi ákvörðun Seðlabankans er einkennileg í ljósi þess ástands nú ríkir. Ísland glímir í dag við mikið atvinnuleysi, en yfir 12.000 einstaklingar eru nú án atvinnu og fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Þá má einnig benda á að heimsbyggðin stendur núna frammi fyrir erfiðri efnahags- og fjármálakreppu og Seðlabankar víðsvegar um heim keppast við að halda stýrivöxtum lágum til að örva hagvöxt og fjárfestingar. Á sama tíma og íslenska hagkerfið er hálf lamað telur Seðlabanki Íslands nauðsynlegt að slá á þenslu með því að hækka vexti. Starfsgreinasamband Íslands telur að vaxtahækkunin minnki líkurnar á því að okkur takist að auka hér fjárfestingar og hagvöxt og þar með minnka atvinnuleysið. Þessi ákvörðun er slæm og vinnur gegn markmiðum kjarasamninga sem Starfsgreinasambandið gerði við atvinnurekendur í vor, þar sem kveðið var á um að hér yrði mótuð efnahagsstefna sem byggi á ásækinni hagvaxtarstefnu með því að skapa aðstæður til þess að fjárfestingar gætu aukist verulega.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag