Þing EFFAT

4. þing EFFAT, evrópskra samtaka launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði fer fram dagana 20.-21. nóvember næstkomandi og er þingið haldið í Vínarborg í Austurríki. Að þessu sinni verður kastljósinu beint að þeim skelfilegu áhrifum sem fjármálakreppan hefur haft á lífs- og starfsskilyrði launafólks víðsvegar um Evrópu. Þingfulltrúum er jafnframt ætlað að móta stefnu samtakanna næstu fimm árin. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, verður fulltrúi SGS á þinginu, en öll aðildarfélög samtakanna er heimilt að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing EFFAT. Þess má geta að um 120 landssambönd með 2,6 milljón félagsmenn frá 38 löndum eiga aðild að samtökunum. Í tilefni af þinginu verður haldin kvennaráðstefna sem fer fram í dag, 19. nóvember. Stjórnkerfi EFFAT Æðsta vald sambandsins er þing sem haldið er fimmta hvert ár.  Öll aðildarfélög mega senda a.m.k. einn fulltrúa á þing EFFAT, en aðildarsambönd með fleiri en 10.000 félagsmenn mega senda fleiri fulltrúa samkvæmt ákveðinni reiknireglu. Á milli þinga fer sambandsstjórn með æðsta vald sambandsins en öll lönd eiga a.m.k. eitt sæti í sambandsstjórn sambandsins, en félög með fleiri en 30.000 félagsmenn fá tvo fulltrúa í stjórn, félög með fleiri en 60.000 fá þrjá fulltrúa og lönd með fleiri 120.000 félagsmenn eiga rétt á einum aukafulltrúa í stjórn fyrir hverja 100.000 félagsmenn umfram það. Mælst er til að helmingur þingfulltrúa séu konur. Norðurlöndin eiga samtals 14 fulltrúa í sambandsstjórn.  Stjórnin fundar að lágmarki tvisvar sinnum á ári. Sérstök framkvæmdastjórn sem ber ábyrgð á rekstri samtakanna, samanstendur af formanni, varaformanni, framkvæmdastjóra og 15 fulltrúum starfsgreina og svæða. Framkvæmdastjórn hittist a.m.k. fjórum sinnum á ári. Norðurlöndin eiga varformann samtakanna og fjóra fulltrúa til viðbótar. Gildi fyrir SGS SGS er skuldbundið að vera meðlimur í EFFAT með því að vera meðlimur í NU-LIVS og NU-HRCT, en bæði þessi samtök eru mjög virk innan EFFAT og nota norræna vettvanginn til að samræma stefnu sína á Evrópu vettvangnum. Með virkri þátttöku í EFFAT getur SGS passað upp á sjónarmið og hagsmuni íslensks launafólks, ekki síst í ljósi þess að EFFAT á fulltrúa í ráðgjafanefndum framkvæmdastjórnar ESB, ráðherranefndar ESB og ESB þingsins um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag