Tryggja verður trúverðugleika lífeyriskerfisins og samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.

„Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins telur mikilvægt að lífeyrissjóðakerfið grundvallist áfram á skylduaðild, samtryggingu, sjóðasöfnun og sjálfbærni kynslóðanna. Tryggja verður að fjárfestingarstefna sjóðanna sé unnin á traustum forsendum. Þar verða hagsmunir sjóðfélaga að sitja í fyrirúmi þar sem fagleg vinnubrögð og siðferðileg nálgun haldast í hendur. Hafi verið misbrestur þar á verður verkalýðshreyfingin að taka á þeim vanda af festu og ábyrgð m.a. með mótun skýrrar stefnu í lífeyrismálum.  Framkvæmdastjórnin fagnar þess vegna þeirri umræðu sem nú á sér stað á vettvangi ASÍ um lífeyrismál og þeirri ákvörðun Landssambands lífeyrissjóða að setja í ganga vinnu óháðrar rannsóknarnefndar um málefni lífeyriskerfisins,“ segir í umsögn framkvæmdastjórnar SGS um fram komin drög ASÍ um málefni lífeyrissjóðanna og „væntir þess að fomannafundur ASÍ, sem haldinn verður 25. þ.m. staðfesti í meginatriðum þá hugmyndafræði sem mótuð var á fulltrúafundi aðildarsamtaka ASÍ í febrúar.“ „Framkvæmdastjórnin telur að bregðast verði við þeirri gagnrýni, óánægju og tortryggni sem er meðal félagsmanna í garð fjárfestingastefnu og starfshátta lífeyrissjóðanna undanfarin ár. Tryggja verður trúverðugleika lífeyriskerfisins sem byggi á skýrum reglum um innri starfsemi sjóðanna og samfélagslega ábyrgar fjárfestingar. Mikilvægt er að stjórnarmenn lífeyrissjóða séu vel hæfir til að takast á við vandasöm verkefni og að stjórnendur standist lögbundið hæfnismat. Yfirfara þarf lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem og lög um fjármálamarkaðinn. Mikilvægt er að verkalýðsfélögin setji sér reglur um kjör fulltrúaráðs lífeyrissjóðanna og að valið sé á opin, félagslegan hátt eins og gildir um önnur trúnaðarstörf fyrir verkalýðshreyfinguna.  Efla þarf fræðslu meðal stjórnarmanna og fulltrúa í fulltrúaráði lífeyrissjóðanna um málefni þeirra. Nauðsynlegt  er að Verkalýðshreyfingin beiti sér sjálf fyrir menntun sinna fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða, þannig að þekkingarskortur þurfi ekki að koma í veg fyrir stjórnarsetu í sjóðunum,“ segir ennfremur í umsögninni sem afgreidd var á fundi framkvæmdastjórnar nú í dag.  
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag