Yfirlýsing frá Starfsgreinasambandi Íslands vegna úrskurðar félagsdóms

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) lýsir miklum vonbrigðum með nýfallinn dóm félagsdóms í máli Rafiðnaðarsambandsins vegna tæknimanna hjá RÚV en Samtök atvinnulífsins (SA) höfðu efast um lögmæti verkfallsaðgerða tæknimannanna. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að telja atkvæði vegna verkfallsboðunar margra stéttarfélaga í einu lagi, jafnvel þó að um sameiginlegar aðgerðir sé að ræða. Í ljósi þess að yfirstandandi atkvæðagreiðsla Starfsgreinasambandsins er einnig vegna sameiginlegra aðgerða margra stéttarfélaga hefur samninganefnd SGS ákveðið að afturkalla atkvæðagreiðsluna. Verður hún í kjölfarið endurtekin hjá hverju félagi fyrir sig. Þetta gæti þýtt að fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir á vegum SGS frestist um tvær til þrjár vikur. Uppfærð áætlun um aðgerðir verður kynnt fljótlega og í kjölfarið munu öll félögin 16 sem aðild eiga að samninganefnd SGS boða til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna. Meginkrafa SGS hefur verið að lágmarkslaun verði hækkuð í 300 þúsund krónur innan þriggja ára og stefnir sambandið ótrautt á verkfall náist ekki samkomulag áður um það sem SGS álítur mannsæmandi kjör. Verkfallsaðgerðirnar munu taka til ríflega 10.000 manns sem starfa á matvælasviði, svo sem í fiskvinnslu, kjötvinnslu og sláturhúsum, í þjónustugreinum, svo sem ferðaþjónustu og ræstingum og í byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, iðnaði og flutningsgreinum. Statement from the Labor Union. Oświadczenie Unii Związków.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)