Hafa samband

FRÉTTIR

Hvatt til sniðgöngu gagnvart Amazon

Fyrirtækið Amazon, sem er stórtækt á netmarkaðnum, hefur lengi verið alræmt fyrir lélegan aðbúnað og kjör starfsfólks. Amazon er í raun orðið táknmynd fyrir umhverfi þar sem starfsfólk er rekið miskunnarlaust áfram, komið í veg fyrir að gerðir séu kjarasamningar og að fólk geti skipulagt sig í stéttarfélög. Að auki fara öll samskipti við viðskiptavini fram um netið og því sjá viðskiptavinir aldrei aðbúnað starfsfólksins en staðfesting á lélegum aðbúnaði hefur birst í gegnum faldar myndavélar inni í birgðageymslum fyrirtækisins. Nú hefur starfsfólk Amazon í Evrópu bundist höndum um verkfall og óska eftir stuðningi heimsins með sniðgöngu við fyrirtækið þessa vikuna. Krafa starfsfólksins er bættur aðbúnaður og betri vinnuskilyrði en dæmi um aðbúnað er:

  • Starfsfólki í Póllandi er gert ómögulegt að krefjast hærri launa með vinnustöðvun vegna nýlegrar lagasetningar.
  • Starfsfólk í Þýskalandi hefur barist árangurslaust fyrir því að fá kjarasamning við fyrirtækið síðustu tvö árin.
  • Á Ítalíu eru aðallega ráðnir undirverktakar til fyrirtækisins sem eru réttindalausir.
  • Á Spáni versnuðu starfsskilyrði til muna um leið og kjarasamningur rann út og ekki var gengið til viðræðna um endurnýjun.
  • Í Englandi og Frakklandi eru svo miklar kröfur um afköst að starfsfólk sem þarf að afgreiða til útsendingar 300 vörur á klukkustund hefur brugðið á það ráð að pissa í flöskur í stað þess að fara á klósettið. Þá er starfsfólki refsað fyrir veikindadaga og að taka frí vegna fæðingarorlofs.

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og félagsleg undirboð og slæm starfsskilyrði á einum stað hefur áhrif á okkur öll. Styðjum starfsfólk Amazon í þeirri sjálfsögðu kröfu að bæta starfsskilyrði, fá kjarasamning og lágmarks réttindi á vinnumarkaði!