Hafa samband

Komið að kvennastéttunum

Komið að kvennastéttunum

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands fagnar því að fyrrverandi ríkisstjórn hafi ráðist í jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum og ætlunin sé að auka framlag til stofnana til að standa straum af hækkun launa kvennastétta í kjölfar þess að hjúkrunarfræðingar sömdu um launahækkun. Hjúkrunarfræðingar sömdu þó um að meðaltali 6,4% hækkun, en allir innan stéttarinnar fengu í það minnsta 4,8% hækkun í gegnum stofnanasamning. Framlag ríkisins til stofnana fyrir allar stéttir er sambærilegt við 4,8% hækkun launa og því um algera lágmarkshækkun að ræða.

Það er ljóst að starfsfólk á umönnunarstofnunum hefur tekið á sig þungar byrgðar síðustu ár og það á ekki síst við um hóp almenns starfsfólks sem hefur þurft að sæta skertu starfshlutfalli, útvistun þjónustuþátta sem dregur úr starfsöryggi og aukins álags. Þetta er hópurinn sem er á lægstu laununum og hópurinn sem hefur þurft að taka á sig þungar byrgðar. Það er krafa Starfsgreinasambandsins að þessi hópur fái sömu prósentuhækkun og hjúkrunarfræðingar og njóti auk þess starfsöryggis á við aðrar stéttir. Það þarf að vinda ofan af þeirri þróun að sparnaði innan heilbrigðisstofnana sé náð með útvistun verkefna eða lækkun starfshlutfalls þeirra sem lægstu launin hafa. Heilbrigðisstofnanir eru fjársveltar og því er ljóst að aukið framlag af hálfu ríkisins þarf til að mæta sanngjörnum kröfum um að lægstu laun haldi í við þær hækkanir sem aðrir hópar fá.