Hafa samband

FRÉTTIR

Næstu skref í kjaraviðræðunum

Þau félög sem felldu fyrirliggjandi kjarasamninga fara nú sjálf með umboð til kjaraviðræðna. Þau hafa verið boðuð hvert í sínu lagi á samningafund hjá ríkissáttasemjara í dag, 4. febrúar. Margar skýringar eru á því af hverju félagar í 14 aðildarfélögum SGS felldi samningna. Það er þó ljóst að með því að fella samningana var töluverður hluti verkafólks að lýsa þeirri skoðun sinni að ábyrgðin á stöðugleikanum verður ekki lögð einhliða á herðar launafólks. Fréttir af hækkunum fyrirtækja, sveitarfélaga og opinberra stofnana um og eftir áramót höfðu þar gríðarleg áhrif auk þess sem kjarasamningurinn var töluvert frá þeim hógværu kröfum sem Starfsgreinasambandið hafði lagt fram.

Á fundunum í dag með SA og sáttasemjara fá þau félög sem felldu samningana tækifæri til að skýra það milliliðalaust af hverju fór sem fór og hvað þarf til svo að fólk geti sætt sig við nýjan kjarasamning. Þau félög sem eiga fund í dag eru auk Flóabandalagsins; Eining-Iðja, Báran, Framsýn og Vlf. Þórshafnar, Vlf. Akraness, Aldan, Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Drífandi, Vlf. Snæfellinga og Vlf. Grindavíkur.

Fimm félög samþykktu samningana og hafa þau félög myndað samninganefnd til að vinna eftir viðræðuáætlun fyrir samningana sem eru lausir að ári. Sá samningur sem var undirritaður í desember var aðfarasamningur til eins árs og fólst í honum að félögin legðu fram kröfugerð í upphafi ársins fyrir næstu samningalotu. Viðræður eiga svo að fara fram jafnt og þétt yfir árið. Þessi fimm félög eru: Vlsf. Bolungarvíkur, Vlf. Vestfirðinga, Afl-starfsgreinafélag, Vlf. Suðurlands og Vlsf. Sandgerðis. Kröfugerðin er í vinnslu og verður lögð fram um miðjan febrúar.