Hafa samband

Samningaviðræður hafnar

Samningaviðræður hafnar

Samninganefnd Starfsgreinasamandsins, annarra en flóafélaganna, átti fund með Samtökum atvinnulífsins, SA, í gær föstudag, þar sem skipst var á skoðunum um kröfugerð Starfsgreinasambandsins og mál reifuð. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA gat þess að samtökin hafi nú hitt öll aðildarfélög innan ASÍ. Þar hafi sú grundvallarspurning verðið lögð á borðið hvort menn væru tilbúnir til að ræða ,,samræmda launasstefnu” á vinnumarkaði með kjarasamningi til 3ja ára á hógværum nótum eins og í nágrannalöndunum.

Þótt samræmd launastefna sé e.t.v. skynsamleg er vandséð hvernig slíkri stefnu verði náð í sátt allra þeirra fjölmörgu aðila sem hafa lausa kjarasamninga um þessar mundir. Staða atvinnugreinanna er afar misjöfn og ljóst er að sveitarfélög og ríkið eru ekki beinlínis burðugir atvinnurekendur um þessar mundir. Í slíku umhverfi er hæpið að samkomulag náist um samræmda launastefnu, þótt góður vilji væri fyrir hendi og fyrir slíkri stefnu væru mörg skynsemisrök. Nærtækara er að  ætla að frumkvæði að kjaraumhverfi næstu ára verði mótað í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum fyrst og fremst, milli SA og þeirra aðildarsambanda ASÍ sem þyngst vega.

Starfsgreinasambandið er og hefur verið sér meðvitað um mikilvægi þess að koma fjárfestingum í atvinnulífinu í gang, sem er lykilatriði út úr þeim vanda sem við er að glíma til að efla atvinnustigið. Þá er einnig ljóst að kjarasamningar sem byggja á stöðugleika er ein af forsendum nýrra fjárfestinga. Til þess að ná stöðugleika þarf þó margt fleira að koma til en viðhorf aðila vinnumarkaðarins og óskhyggja. Lausn Icesave málins skiptir máli og gengið verður að styrkjast meira. Sú framtíðarsýn að hér sé stöðugur gjaldmiðill næst aldrei ef við viljum ekki losa okkur við krónuna og gjaldeyrishöftin. Hækkun persónuafsláttar, vaxta- og húsaleigubætur eru mikilvægar stjórnvaldsaðgerðir sem leiða til aukins kaupmáttar. Þetta allt eru veigamikil atriði sem snúa að stjórnmálum og stjórnvöldum en til þeirrar áttar horfir illa með trúnað og traust sem stendur. Stöðugleiki á vinnumarkaði er þó engu að síður háður pólitíksum vilja.

 

Starfsgreinasambandsfélögin hafa krafist 200 þúsund króna lágmarkslauna fyrir dagvinnu og almennra hækkana á launatöxtum. Meginmarkmið kröfugerðarinnar er að endurheimta glataðan kaupmátt eins fljótt og verða má og öllum er ljóst að það er verkefni sem þarf að vinna að. Einnig ,,að skapa ný störf og létta á því böli atvinnuleysisins og þeim fjárhagsvanda sem fjölskyldur í landinu glíma við.”  Fyrsta skrefið í þá átt er hafið með formlegum viðræðum við Samtök atvinnulífsins en engin afstaða hefur verið tekin til hugmynda SA um samræmda launastefnu fyrir alla.