Hafa samband

Skipulagsbreytingar á döfinni hjá ASÍ

Skipulagsbreytingar á döfinni hjá ASÍ

Mikil umræða hefur farið fram á vettvangi ASÍ á vormisseri um skipulagsmál hreyfingarinnar. Fundir hafa verið haldnir með öllum aðildarfélögum og samböndum ASÍ þar sem framtíðarsýn var reifuð og rædd. Fjögur megin atriði standa upp úr þeirri umræðu. Í fyrsta lagi er það aðildarfyrikomulag að ASÍ, en nú er aðildin ýmist bein eða í gegnum landssambönd stéttarfélaga eins og t.d. Starfsgreinasamband Íslands. Starfsgreinasambandið er stærst landssambanda með 19 aðildarfélög verkafólks innan sambandsins og um 55 félagsmenn í ýmsum starfsgreinum um allt land. Í öðru lagi var það spurning um hlutverk þings ASÍ. Í þriðja lagi skipan stjórna ASÍ og í fjórða lagi staða ungs fólks í verkalýðshreyfingunni.

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandins hefur fjallað um þessi atriði og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert sé því til fyrirstöðu að Starfsgreinasamband Íslands geti áfram orðið mikilvægur samráðsvettvangur eða samband einstakra starfsgreina og/eða stéttarfélaga sem sameiginlegra hagsmuna hafa að gæta á tilteknum sviðum um tiltekin málefni þótt bein aðild þeirra að ASÍ yrði veruleiki án milligöngu SGS. Það getur átt við vegna starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, í ferðaþjónustugreinum, á matvælasviði, í bygginga- og flutningargreinum, á iðnaðar- og orkusviði. Á öllum þessum sviðum gildi kjarasamningar SGS við ríki, sveitarfélög og SA.

Slíkur samráðsvettvangur starfsgreina er að verða æ mikilvægari þar sem samvirkni hagsmunaaðila og stjórnvalda er nauðsynleg til þess að tryggja árangur félagslegra úrbóta sem um er samið og vegna umræðu um hagsmuni starfsfólks í tilteknum atvinnugreinum, fjölgunar verðmeiri starfa og nýsköpunar. Þannig starfar hin norræna og evrópska verkalýðshreyfing í meginatriðum og gerir sig gildandi um þau málefni sem starfsgreinarnar varða. Í hugmyndum að skipulagsbreytingnum felist þess vegna nýtt tækifæri fyrir Starfsgreinasamandið, sem sé það að laða önnur aðildarfélög ASÍ, í tilteknum starfsgreinum, að slíkum samráðsvettvangi. Slík umræða yrði þó fyrst tekin að samþykktum skipulagsbreytingum um aðild að ASÍ.

Hér fer á eftir umsögn framkvæmdastjórnar SGS frá 21. maí s.l.:

 

Umsögn framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambandins vegna skipulagsumræðu innan ASÍ.

,,Skipulags- og starfsháttanefnd ASÍ hefur skilgreint fjögur megin atriði úr þeirri umræðu sem átt hefur sér stað meðal aðildafélaga ASÍ. Það eru aðild að ASÍ, þing ASÍ, skipan stjórna ASÍ og staða ungs fólks. Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandins hefur fjallað um þessi atriði og komist að eftirfarandi niðurstöðu:

 

Aðild að ASÍ.

Framkvæmdastjórnin styður þá hugmynd að stéttarfélögum sé gert mögulegt að hafa beina aðild að ASÍ, án aðildar í gegnum samband stéttarfélaga enda sé þeim það einnig opið. Eftir sem áður geti einstök stéttarfélög átt sérstaka aðild að sambandi eða samráðsvettvangi stéttarfélaga, sem þjóni sameiginlegum hagsmunum þeirra, einstakra greina eða hópa, m.a. til að halda utan um kjarasamning eða önnur sameiginleg málefni, svo sem fræðslumál, hagsmuni verkafólks í sömu starfsgrein á landsvísu, erlend samskipti o.fl.

 

Ef samstaða næst um skipulagsbreytingar um beina aðild að ASÍ, án aðildar gegnum sambönd, telur framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins ekkert því til fyrirstöðu að Starfsgreinasamband Íslands geti, að þeim breytingum orðnum, áfram orðið mikilvægur samráðsvettvangur eða samband einstakra greina og/eða stéttarfélaga sem sameiginlegra hagsmuna hafa að gæta á tilteknum sviðum um tiltekin málefni, t.d. vegna starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, í ferðaþjónustugreinum, á matvælasviði, í bygginga- og flutningargreinum, á iðnaðar- og orkusviði. Slík umræða yrði þó fyrst tekin innan SGS að samþykktum skipulagsbreytingum um aðild að ASÍ.

 

Ársfundir eða þing ASÍ og hlutverk þess.

Þegar sú ákvörðun var tekin að breyta ársfundum SGS í þing annað hvert ár og halda sérstaka formannafundi það ár sem þing er ekki haldið, var gert ráð fyrir því að sambærilegar lagabreytingar næðu fram að ganga hjá ASÍ. Í ljósi þessa styður framkvæmdastjórn SGS þær hugmyndir að ASÍ taki upp þinghald annað hvert ár og að forysta sambandsins verði kosin í einu lagi annað hvert ár.

 

Skipulags- og starfsháttanefnd ASÍ hefur dregið saman hugmyndir að ,,útlínum” þess hvert væri hlutverk þings ASÍ og fundar milli þinga þess, miðstjórnar og framkvæmdastjórnar ASÍ. Framkvæmdastjórn SGS styður þessar hugmyndir. Þá væri einnig úr sögunni sá óformlegi en virki vettvangur ,,formenn landssambanda og stærstu félaga,” sem hvergi á sér lagastoð í núverandi skipulagi ASÍ en hefur engu að síður verið stefnumótandi innan hreyfingarinnar.

 

Staða ungs fólks.

Framkvæmdastjórn SGS leggur á það áherslu að leita verði allra ráða til að virkja ungt fólk til þátttöku í störfum verkalýðshreyfingarinnar. Hugmyndir skipulags- og starfsháttanefndar eru spor í rétta átt.”