Hafa samband

FRÉTTIR

Stöðvum brotastarfsemi á vinnumarkaði

Hér að neðan er yfirlýsing verkalýðshreyfingarinnar um þá mannfyrirlitningu og brotastarfsemi sem viðgengst á vinnumarkaði gagnvart erlendu launafólki og opinberuð var almenningi í Kveik í síðustu viku.

Í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV 2. október 2018 var varpað ljósi á brotastarfsemi sem viðgengst á vinnumarkaði gagnvart erlendu launafólki. Þar voru sýnd dæmi um alvarlega meinsemd í íslensku samfélagi sem lýsir sér í stórfelldum launaþjófnaði, alvarlegum brotum gangvart öryggi og aðbúnaði erlendra starfsmanna, illri meðferð og framgöngu fyrirtækja sem þegar verst lætur verður ekki lýst nema sem vinnumansali.

Mikilvægt er að árétta að erlenda launafólkið er að leggja mikið til samfélagsins og sá hagvöxtur sem hér hefur verið síðustu misseri er að stórum hluta drifinn áfram af þeirra framlagi til verðmætasköpunar í íslensku samfélagi. Þessir félagar okkar eiga lög- og samningsbundinn rétt til að njóta kjara og annarra réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði. Það er skylda verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að réttur þeirra sem annarra launamanna sér virtur.

Verkalýðshreyfingin hefur á undangengnum árum bent á þá öfugþróun sem verið hefur á íslenskum vinnumarkaði og varpað var ljósi á í Kveik. Og dæmin skipta ekki bara tugum eða hundruðum. Brotin snerta þúsundir erlends launafólks. Alþýðusambandið og aðildarfélög þess hafa brugðist við með því að stórefla upplýsingamiðlun og vinnustaðaeftirlit með það að markmiði að styðja þessa félaga okkar og aðstoða þá við að sækja rétt sinn. Þá hefur verkalýðshreyfingin beitt sér fyrir mikilvægum réttarbótum, nú síðast með löggjöf um keðjuábyrgð.

Sá árangur sem náðst hefur dugar hvergi nærri til. Það þarf að senda skýr skilaboð til fyrirtækja og samfélagsins alls um að brotastarfsemi á vinnumarkaði og misnotkun á erlendu launafólki verði að uppræta með öllum tiltækum ráðum. Það eru hagsmunir þessara félaga okkar. Það eru hagsmunir alls launafólks. Það eru hagsmunir heilbrigðs atvinnulífs og samfélagsins alls. Hér er ábyrgð stjórnvalda og Alþingis mikil.

  • Lögbinda verður hörð viðurlög og sektargreiðslur við launaþjófnaði og öðrum brotum gegn launafólki. Setja í lög keðjuábyrgð fyrir allan vinnumarkaðinn og stöðva kennitöluflakk. Tryggja verður að fyrirtæki geti aldrei hagnast á brotastarfsemi, heldur beri af henni mikinn fjárhagslegan skaða.
  • Samræma þarf og þétta vinnustaðaeftirlit út um allt land. Það kallar á samstarf allra þeirra aðila sem málið varðar: Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlitsins, Ríkisskattstjóra, sveitarfélaganna og lögreglunnar, auk verkalýðshreyfingarinnar. Þar sem farið er í markvissar aðgerðir í ákveðnum atvinnugreinum og á ákveðnum svæðum og nýtt þau úrræði sem hver og einn aðila hefur. Þar sem málin eru unnin allt til enda, brot upplýst og þau stöðvuð. Hér bera samtök atvinnurekenda líka sína ábyrgð.
  • Tryggja verður að þeir einstaklingar sem brotið er á og vilja sækja rétt sinn njóti til þess stuðnings og hafi skjól, ekki aðeins verkalýðshreyfingarinnar heldur samfélagsins alls. Dæmin sýna að hér skortir mikið á.

Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess skora á stjórnvöld og Alþingi að hefjast þegar handa í samstarfi við verkalýðshreyfinguna.

Upprætum launaþjófnað og brotastarfsemi á vinnumarkaði með öllum ráðum!

 

Ef þú ert með ábendingu bendum við á eftirfarandi hlekki:

https://www.asi.is/stefna-asi/einn-rettur-ekkert-svindl/abending/

https://www.ekkertsvindl.is/#hafasamband

https://www.ekkertsvindl.is/english-polski