Hafa samband

Svört atvinnustarfsemi alvarlegt samfélagsvandamál

Svört atvinnustarfsemi alvarlegt samfélagsvandamál

Niðurstöður úr átaki Alþýðusambands Íslands, Samtaka Atvinnulífsins og Ríkissattstjóra voru kynntar í gær þar sem fram kom að ríkissjóður, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og stéttarfélög fara á mis við um 13,8 milljarða tekjur árlega. Þetta á eingöngu við fyrirtæki sem velta minna en 1 milljarði króna á ári, og má því áætla að tapaðar tekjur vegna svartrar atvinnustarfsemi séu umtalsvert hærri ef öll fyrirtæki væru rannsökuð.

Samstarfsátakið sem hófst 15 júní 2011 og stóð formlega til loka ágústmánaðar er einstakt í sinni röð bæði hérlendis sem og annarstaðar í heiminum. Meira en 2000 smærri fyrirtæki voru heimsótt og rætt var við rúmlega 6200 starfsmenn, en um 12% af þessum starfsmönnum reyndust vinna svart. Niðurstöðurnar sýndu að það vantar mikið uppá þekkingu starfsmanna og stjórnenda á lögum og reglum varðandi skatta og kjarasamninga.  Svört atvinnustarfsemi virðist vera alvarlegt samfélagsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við.  Það þarf að auka forvarnir og fræðslu, en um leið styrkja þau úrræði sem eftirlitsaðilar hafa til að koma í veg fyrir svarta vinnu. Átakið sýnir okkur að samfélagið fer á mis við stórar fjárhæðir sem t.d. væri hægt að nota í heilbrigðis- og menntamál.

Framhald á verkefninu

Fjölmörg aðildarfélög Starfsgreinasambandsins lögðu þessu átaki til starfsmenn, þekkingu og fjármuni. Fyrir liggur að það er mikill áhugi hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandins að halda þessu verkefni áfram og sama er uppi á tengingnum hjá öðrum samstarfsaðilum. Markmiðið er að halda átakinu áfram a.m.k. fram að áramótum, en þá verður staðan endurmetin.

 

Skýrsluna má lesa hér