Hafa samband

FRÉTTIR

Tímamótadómur í Félagsdómi

Í gær, 4. júlí, var kveðinn upp dómur í Félagsdómi sem varðar félagsmann Einingar-Iðju, sem er eitt af aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Um tímamótadóm er að ræða sem víst er að hafa mun mikið fordæmisgildi.

Málið snerist um trúnaðarmann Einingar-Iðju sem starfar í vaktavinnu. Viðkomandi trúnaðarmaður sótti trúnaðarmannanámskeið á árinu 2017 en námskeiðið stóð í 3 daga, frá kl. 9 til 16. Þannig stóð á að samkvæmt vaktaplani átti trúnaðarmaðurinn að vera á kvöldvöktum tvo daga af þessum þremur og var boðið að koma á vaktina eftir að námskeiðinu lauk. Því hafnaði trúnaðarmaðurinn enda taldi hann sig vera búinn að uppfylla vinnuskyldu sína þá daga í formi setu á námskeiðinu.

Þessu hafnaði vinnuveitandinn og hélt því m.a. fram að trúnaðarmanninum hafi borið að mæta á vaktir eftir að námskeiðinu lauk og neitaði að greiða laun vegna þessara vakta. Eining-Iðja ákvað, í samráði við lögmenn félagsins, að fara með málið fyrir Félagsdóm sem féllst á þá kröfu félagsins, f.h. trúnaðarmannsins, að viðurkennt yrði að réttur hans til launa yrði ekki skertur vegna setu á trúnaðarmannanámskeiði.

Ágreiningurinn stóð þannig einkum um það hvort réttur trúnaðarmannsins til reglubundinn launa héldist þó svo að trúnaðarmannanámskeið skarist ekki á við ákveðinn vinnutíma en afstaða Einingar-Iðju var sú að það ætti ekki að skipta máli enda væri rétturinn skýr og ótækt að ætlast til þess að trúnaðarmaður sem sækir námskeið á dagvinnutíma, þurfi að mæta á vakt að því loknu og skila þannig 16 tíma vinnudegi.

Félagsdómur slær því föstu að það samræmist ekki þeim meginreglum sem gilda um hlutverk og stöðu trúnaðarmann að láta þá gjalda starfa sinna sem trúnaðarmenn með því að greiða ekki full, reglubundin laun í þeim tilfellum er trúnaðarmannanámskeið hefur áhrif á getu þeirra til að sinna vinnuskyldu sinni. Þá tekur Félagsdómur það sérstaklega fram að það hafi verið íþyngjandi krafa af hálfu vinnuveitanda að ætlast til þess að trúnaðarmaðurinn ynni kvöldvaktir eftir að námskeiðinu lauk, en sæta ella launaskerðinu.

Starfsgreinsambandið fagnar þessari niðurstöðu en um er að ræða afar mikilvægan dóm sem varðar réttindi trúnaðarmanna í stéttarfélögum á Íslandi.

Dóm Félagsdóms má lesa með því að smella hér