Hafa samband

Verkfall framhaldsskólakennara

Verkfall framhaldsskólakennara

Nýlega samþykktu kennarar í ríkisreknum framhaldsskólum landsins að fara í verkfall 17. mars næstkomandi, hafi samningar við þá ekki náðst fyrir þann tíma.

Félagsmenn í aðildarfélögum SGS er að finna innan framhaldsskólanna og mikilvægt er að það launafólk sé upplýst um stöðu sína ef til verkfalls framhaldsskólakennara kemur. Yfirvofandi verkfall tekur aðeins til þeirra sem eru félagar í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Verkfallið tekur því ekki til húsvarða, starfsfólks í mötuneytum, starfsfólks við ræstingar eða annarra sem vinna almenn störf í framhaldsskólum. Þeim er þó óheimilt að ganga í störf kennara.

Innan framhaldsskólanna er að finna töluverðan fjölda starfsmanna sem eru félagsmenn í aðildarfélögum SGS. Þessir sömu starfsmenn hafa mætingarskyldu og vinnuskyldu í verkfalli kennara. Félagsmönnum í aðildarfélögum SGS ber að mæta á hefðbundnum tíma og sinna sínum daglegu verkefnum eins og ekkert hafi í skorist eins og þeim er framast unnt. Félagsmenn í aðildarfélögum SGS fá líka óskert laun í verkfalli kennara. Samkvæmt flestum ráðningarsamningum geta stjórnendur falið starfsfólki tilfallandi verkefni og skal starfsfólk ganga í þau verk sem óskað er, þ.e. ef þau ganga ekki inn á verksvið kennara eða stjórnenda í verkfalli. Því er sennilegt að ef til verkfalls kemur verði tækifærið nýtt til að gera hreint eða sinna öðrum störfum sem ekki hefur unnist tækifæri til.