Fara á efnissvæði

Mansal á vinnumarkaði

Mansal er ein grófasta birtingamynd mannréttindabrota og nauðsynlegt að stéttarfélög, stjórnvöld og almenningur séu meðvituð um þá vaxandi ógn sem mansal er. Talið er að nærri 27,6 milljón manns séu þolendur mansals í heiminum, þar af 17,3 milljónir í nauðungarvinnu.

Þrátt fyrir alþjóðlega baráttu gegn mansali hefur vandinn vaxið síðustu ár og mun sennilega halda áfram að vaxa. Þó að aldrei sé hægt að segja að ákveðnir einstaklingar séu líklegri en aðrir til að vera seldir mansali þá eru ákveðnir hópar berskjaldaðri og ákveðnar aðstæður þar sem mansal þrífst öðru fremur. Átök í heiminum, flóttamannastraumur og skortur á mannréttindum auka líkur á mansali. Ef litið er til Íslands þá skiptir öllu máli að vera með virkt eftirlit, opna umræðu og skýra verkferla til að minnka líkur á mansali. Hér á landi eru stéttarfélögin einn mikilvægasti hlekkurinn í baráttunni gegn mansali þar sem starfsfólk þeirra hefur oft besta yfirsýn yfir vinnumarkaðinn og hvar brotalamirnar eru.

Alþýðusamband Íslands lét útbúa myndband sem sýnir helstu merkin vinnumansals hér á landi.