Erlent samstarf

Alþjóðlegt samstarf verkalýðsfélaga fer vaxandi á Norðurlöndum, innan Evrópu og í hnattrænu samhengi. Reynsla á Norðurlöndum vegur þungt í umræðunni um aukna samvinnu m.a. til þess að styrkja hina alþjóðlegu verkalýðshreyfingu í baráttunni um grundvallarréttindi launafólks og standa vörð um réttlátt þjóðfélag, byggt á jöfnuði og samstöðu. Samkvæmt lögum SGS er sambandið formlegur og virkur aðili að samstarfi systursamtaka þess á hinum Norðurlöndunum, innan Evrópu og víðar ef við á.

Erlend samskipti eru Starfsgreinasambandinu mikilvæg, bæði verkalýðspólitískt um stefnumörkun og vegna alþjóðlegrar samstöðu.

Einn mikilvægast þáttur við erlent samstarf fyrir SGS er að læra af reynslu annarra þjóða, en stór hluti þeirra vandamála sem koma upp á íslenskum vinnumarkaði eru ekki sér íslensk. Þannig má nefna að norrænt samstarf hefur veitt SGS góða innsýn í það hvernig kjarasamningar stéttarfélaga á Norðurlöndunum eru upp byggðir og þá höfum við lært ýmislegt varðandi baráttu annarra stéttarfélaga við félagsleg undirboð og innflutning á erlendu vinnuafli. Þá geta erlendu starfsgreinasamböndin verið heppilegur vettvangur okkar til að vinna að samræmingu réttinda á milli landa.

Annar þáttur sem er mikilvægur fyrir SGS er samábyrgð og samkennd í vinnudeilum. Norrænu samböndin ráða yfir öflugum styrktarsjóðum, sem nýttir eru til að styrkja aðildarfélög í vinnudeilum. Frá stofnun SGS hefur ekki reynt á fjárhagslega aðstoð í vinnudeilum, en fyrirrennarar SGS hafa fengið styrki í vinnudeilum. Það hefur á hinn bóginn reynt á “móralskan” stuðning í vinnudeilum.

Þriðji þátturinn sem er mikilvægur fyrir SGS er stuðningur og samstaða íslensks launafólks við verkfólk í öðrum löndum.

Fjórði þáttur sem skiptir íslenskt launafólk máli er að evrópsku starfsgreinasamböndin EFFAT og Industri All eiga fulltrúa í margvíslegum ráðgjafanefndum á vegum Evrópusambandsins. Þannig getur SGS með virkri þátttöku í norrænu samtökunum, sem og evrópskum starfsgreinasamböndum varið sjónarmið og hagsmuni íslensks launafólks á margvíslegum sviðum.

Að lokum er vert að minnast á að þetta erlenda samstarf hefur skapað tengslanet sem við getum eflaust nýtt okkur enn betur. Persónuleg tengsl þeirra fulltrúa sem eru í erlendum samskiptum hefur stuðlað að samstarfsverkefnum á milli landa.

Löng hefð er fyrir nánu samstarfi samtaka launafólks á Norðurlöndunum, sem þróast hefur og tekið breytingum í samræmi við þróunina á alþjóðavettvangi. Norræna launþegahreyfingin og starfsgreinasambönd þess, vilja sameina krafta sína til aukinna áhrifa á Norðurlöndum, í Evrópu og hnattrænt. Samvinnan á Norðurlöndunum hefur alla tíð haft ríkt félagslegt inntak og var sem slík lengi vel einstök í alþjóðlegu samstarfi.

Í dag byggir þetta norræna samstarf á skoðanaskiptum, stefnumótun, vinnu að sameiginlegum hagsmunamálum og því að deila af reynslu sinni. Segja má að viðfangsefnin séu fjórþætt:

  1. Að hafa áhrif á þróun norræns vinnumarkaðar og standa vörð um norræna módelið, sem byggir á samráði launafólks, fyrirtækja og stjórnvalda um þróun velferðasamfélags þar sem réttlæti og jöfnuður er hafður að leiðarljósi.

  2. Að samræma sjónarmið og vinna að sameiginlegum áherslum á Evrópuvettvangi. Evrópumál hafa einkennt norræna samstarfið síðustu árin, einkum með tilliti til stækkunar Evrópusambandsins og aukins hreyfanleika launafólks og fyrirtækja milli landa og til að sporna gegn félagslegum undirboðum.

  3. Þróunaraðstoð og alþjóðleg samvinna hefur ávallt verið norrænu verkalýðshreyfingunni hugleikin. Norræna verkalýðshreyfingin hefur yfir að ráða umtalsverðu fjármagni sem notað er til að styðja við þróunaraðstoð og samstöðuverkefni víðsvegar um heim.

  4. Að samræma stefnu og starf á alþjóðavettvangi,  en norrænu samtökin eru leiðandi í alþjóðastarfi samtaka launafólks.

Norræn starfsgreinasambönd sem SGS á aðild að:
Samband norræns starfsfólks í iðnaði (Nordic-IN)
Samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum (NU-HRCT)
Samtök starfsfólks í matvælagreinum á Norðurlöndunum (NU-LIVS)
Norræna byggingar og tréiðnaðarsambandið (NBTF)

Samstarf Evrópuríkjanna hefur kallað á aukið samstarf samtaka launafólks og aðila vinnumarkaðarins í Evrópu. Mikilvægur þáttur í starfi Evrópusambanda stéttarfélaga er að hafa áhrif á stefnumótun og löggjöf um efnahags-, atvinnu-, vinnumarkaðs- og félagsmál í Evrópu og þá sérstaklega á vettvangi ESB. Þegar Evrópusambandið vinnur að því að móta stefnu sína í málefnum sem tengjast vinnumarkaði þá eru drögin send til umsagnar hjá evrópsku verkalýðshreyfingunni, m.a. til þeirra evrópusamtaka sem SGS er aðili að. Þar gefst okkur tækifæri til að hafa áhrif á málefni sem varða norræna og ekki síður íslenskan vinnumarkað sem skiptir okkur máli.

Systursamtök SGS í Evrópu:
Evrópusamtök launafólks í iðnaði og framleiðslu (IndustriAll)
Samtök launafólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði í Evrópu (EFFAT)

Alþjóðavæðingin með auknum viðskiptum og samskiptum þjóða á öllum sviðum felur í sér að þekking og þátttaka í alþjóðastarfi verður stöðugt mikilvægari fyrir verkalýðshreyfinguna á alþjóðavettvangi og í þjóðríkjunum. Þá hefur alþjóðavæðingin aukið skilning á mikilvægi stuðnings samtaka launafólks við verkalýðshreyfingu og alla alþýðu í þróunarríkjunum.

Alþjóðleg starfsgreinasambönd sem SGS á aðild að:
Alþjóðleg samtök launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði (IUF)

Var efnið hjálplegt?