Fara á efnissvæði

Finnbjörn Hermannsson endurkjörinn forseti ASÍ

Rétt í þessu lauk þriggja daga þingi Alþýðusambands Íslands þar sem Finnbjörn A. Hermannsson hlaut endurkjör í embætti forseta sambandsins. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags var kjörin í embætti annars varaforseta ASÍ. Í embætti fyrsta varaforseta var kjörinn Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og í embætti þriðja varaforseta var kjörin Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Engin mótframboð bárust og var sjálfkjörið í öll embættin til nætu tveggja ára.

Starfsgreinasamband Íslands á þrjá aðalmenn og fjóra varamenn í miðstjórn ASÍ. Aðalmenn eru þau Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (2. varaforseti) Vilhjálmur Birgisson (formaður SGS og VLFA) og Guðbjörg Kristmundsdóttir (varaformaður SGS og formaður VSFK). Varamenn eru þau Anna Júlíusdóttir (Eining-Iðja), Finnbogi Sveinbjörnsson (VerkVest), Eyþór Þ. Árnason (Hlíf) og Guðrún Elín Pálsdóttir (VLFS).

Almenn ánægja ríkti með vinnubrögð og málefnastarf á þinginu og voru fjölmargar ályktanir afgreiddar annað hvort að fullu eða til frekari vinnslu í miðstjórn ASÍ. Ályktanir samþykktar af þinginu og frekari upplýsingar um þingið er að finna hér.

Nýtt forsetateymi Alþýðusambands Íslands kjörið á 46. þingi ASÍ. F.v. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags, Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.