Fara á efnissvæði

Gjaldahækkanir hins opinbera ógna stöðugleika

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, sem haldin var í gær, skorar á ríki og sveitarfélög að axla ábyrgð á gjaldahækkunum langt umfram verðbólguviðmið, þvert á loforð við undirritun kjarasamninga fyrir tæpum tveimur árum.

Formannafundur SGS minnir á að meginmarkmið kjarasamninga sem undirritaðir voru 2024 var lækkun verðbólgu með samstilltu átaki verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga. Aðilar vinnumarkaðarins gengu frá fjögurra ára kjarasamningi með hófstilltum launahækkunum. Ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, verslun og þjónusta gáfu loforð um að ætla að leggja sitt af mörkum og halda aftur af gjaldskrár- og verðhækkunum.

Í upphafi árs 2026 er útlit fyrir að íslenskt launafólk hafi verið svikið. Almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum eru 3,5% á meðan gjöld á grunnþjónustu hækka um tugi prósenta. Þetta er ekki stöðugleiki, þetta er ekki ábyrg hagstjórn, heldur gjaldagleði sem kyndir undir verðbólgu og bitnar harkalega á launafólki og heimilum landsins.

Í desember sl. jókst verðbólga úr 3,7% í 4,5% og greiningaraðilar hafa spáð verðbólgu í kringum 5% næstu mánuðina. Rétt er að minna á að í gildandi kjarasamningum er skýrt ákvæði um að 12 mánaða verðbólga mælist ekki yfir 4,7% í ágúst 2026. Að öðrum kosti opnast heimild til að segja samningum upp næsta haust.

Því miður er margt sem bendir til þess að verðbólgan geti farið yfir þetta mark og forsendur kjarasamninga bresti. Ef það gerist hvílir ábyrgðin ekki hjá launafólki sem forgangsraðaði stöðugleika fram yfir beinar launahækkanir í langtímasamningi. Ábyrgðin hvílir hjá þeim sem hafa svikið loforð sín um að halda aftur af gjaldskrár- og verðhækkunum og hafa þess í stað kosið að velta byrðinni yfir á almenning.

Ljóst þykir að ríki og sveitarfélög hafa ekki staðið við gefin loforð eins og nýleg dæmi sýna. T.a.m. mun innleiðing kílómetragjalds hækka meðalkostnað heimila af rekstri bíls um 6,5% á milli ára, sem eykur verðbólguna um 0,2 til 0,5 prósentustig núna í janúar samkvæmt spám. Þá hækkaði ríkið einnig vörugjöld á ökutæki sem ganga fyrir bensíni og dísel um 10% núna um áramótin.

Fyrirtæki í eigu hins opinbera hafa einnig lagt sín lóð á vogarskálarnar í gjaldagleðinni. T.d. hefur eitt stærsta orkufyrirtæki landsins, Veitur, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, hækkað fastagjald hitaveitu um 50% á einu ári. Svo stórfelld hækkun á jafn mikilvægri grunnþjónustu sem er greitt fyrir óháð notkun er ekkert annað en fordæmalaus. 

Ríki og sveitarfélög, sem hefðu átt að leita allra leiða til þess að komast hjá umræddum gjaldskrárhækkununum, kusu að gera það ekki. Af þessu verður ekki annað ráðið en að ríki og sveitarfélög ætli sér ekki standa vörð með aðilum vinnumarkaðarins gegn verðbólgunni.

Ályktunina í heild sinni má lesa hér