Fara á efnissvæði

Heimsókn til Vestmannaeyja

Í vikunni heimsótti formaður SGS, Vilhjálmur Birgisson, félaga okkar hjá Drífanda stéttarfélagi í Vestmannaeyjum. Auk Vilhjálms tóku þátt í heimsókninni þeir Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, og Róbert Farestveit, sviðsstjóri hagfræði- og greiningarsviðs ASÍ. Í Vestmannaeyjum tóku þau Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda, og Guðný Óskarsdóttir varaformaður á móti hópnum, auk Kolbeins Agnarssonar, formanns Sjómannafélagsins Jötuns.

Á fundi með stéttarfélögunum var farið yfir helstu baráttumál þeirra og þær áskoranir sem brenna heitast á Eyjamönnum í dag: samgöngumál, heilbrigðisþjónusta og ýmis réttindamál. Þetta eru atriði sem skipta sköpum fyrir samfélagið allt, ekki síst í sjávarplássum og fámennari byggðarlögum þar sem þjónusta og aðgengi er jafnframt forsenda atvinnuöryggis og mannlífs. Samtöl sem þessi eru ómetanleg fyrir okkur sem stöndum daglega vörð um réttindi launafólks. Að fundi loknum fékk hópurinn að kynnast uppbyggingu og starfsemi tveggja lykilfyrirtækja í atvinnulífi Vestmannaeyja, Laxey og Vinnslustöðvarinnar.

Fyrst var haldið í heimsókn til Laxeyjar þar sem uppbyggingin hefur verið með eindæmum, metnaðurinn gríðarlegur og framtíðarsýnin skýr og sterk. Nýlega var fyrstu löxunum slátrað, um 150 tonnum, og fóru um 98% í hæsta gæðaflokk. Það er árangur sem talar sínu máli.

Það er kannski ekki öllum ljóst hversu mikilvægt þetta fyrirtæki er og getur orðið. Eftir 5–7 ár, þegar reksturinn nær fullum afköstum, er áætlað að útflutningstekjur Laxeyjar geti numið allt að 43 milljörðum króna á ári, sem jafnast á við góða loðnuvertíð. Nú þegar starfa þegar um 100 manns hjá fyrirtækinu og fjöldi afleiddra starfa fylgir í kjölfarið. Þetta er verðmætasköpun sem býr til framtíð, styrkir samfélagið og skilar ávinningi til þjóðarbúsins í heild. Ekki gleður það síður að um 50% eignarhlutur liggur hjá Eyjamönnum, 30% hjá lífeyrissjóðum og aðeins 20% í erlendri eigu.

Þá hélt hópurinn til Vinnslustöðvarinnar þar sem umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir, alls um 5 milljarðar í fjárfestingum. Þar var meðal annars rætt um veiðigjöld og þann ótta sem ríkir um að þau gætu haft neikvæð áhrif á atvinnuöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks. Formaður SGS lagði áherslu á mikilvægi þess að fá fram skýra mynd af áhrifum veiðigjalda og hvort þau geti leitt til samþjöppunar í greininni eða veikt stöðu starfsfólks. Það væri óásættanlegt og mikilvægt að líta ekki fram hjá þeim möguleika.

Þeim Arnari, Guðnýju og Kolbeini eru færðar innilegar þakkir fyrir hlýjar móttökur og fyrir að sýna okkur þann styrk og þrótt sem býr í samfélaginu í Vestmannaeyjum.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni.

Text
Text
Text