Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ, með samtals um 44.000 félagsmenn. Meginhlutverk SGS er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum, standa vörð um áunnin réttindi, vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks.
Starfsgreinasambandið var stofnað 13. október árið 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands, sem stofnað var árið 1964, Þjónustusambands Íslands, vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum, sem stofnað var árið 1972 og Landssambands iðnverkafólks frá 1973. Stofnfélög Starfsgreinasambandsins voru 50 að tölu en í dag eru aðildarfélögin 18 talsins.