Vistráðning (Au pair)

Vistráðning, eða Au pair, eins og það heitir á ensku, er ekki hefðbundin vinna og lýtur ekki sömu lögmálum og venjuleg störf. Þessu er þó stundum ruglað saman en slíkt ber að forðast. Vistráðning er hugsuð sem möguleiki ungs fólks til að mennta sig og kynnast annarri menningu. Ungt fólk býr hjá fjölskyldu, tekur þátt í léttum heimilisstörfum og/eða umönnun barna á heimilinu og lífi fjölskyldunnar eftir atvikum. Í staðinn fær viðkomandi að kynnast landi og þjóð, fær vasapeninga og húsnæði og tækifæri til að sækja námskeið.

Það eru ýmsar reglur sem gilda um vistráðningu sem verður að fara eftir en í nýjum útlendingalögum er fjallað um vistráðningar. Helstu reglur sem gilda eru þessar:

  • Viðkomandi á að vera á aldrinum 18-25 ára.
  • Störf viðkomandi afmarkast við létt heimilisstörf eða umönnun barna en ekki störf í efnahagslegri starfsemi þ.e. framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði í hagnaðarskyni.
  • Hámarks vinnuframlag er 30 stundir á viku.
  • Greiða skal hinum vistráðna vasapeninga. Lágmarksfjárhæð vasapeninga er nú 40.000 krónur fyrir hverjar fjórar vikur í starfi og hefur verið óbreytt um árabil. Ráðherra á samkvæmt nýjum lögum að gefa út fjárhæð lágmarksvasapeninga í reglugerð.
  • Hinn vistráðni á að fá tveggja daga frí í hverri viku.
  • Tryggja þarf að hinn vistráðni fái nægjanlegan tíma til íslenskunáms og til að geta sinnt eigin áhugamálum.
  • Ef viðkomandi hyggst dvelja umfram 3 mánuði þarf hann að sækja um skráningu hjá Þjóðskrá.
  • Ef viðkomandi kemur frá ríkjum utan EES-svæðisins þarf að sækja um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun áður en komið er til landsins: 
  • Nauðsynlegt er að undirrita samning milli vistfjölskyldunnar og þess sem ræður sig í vist, hér má sjá tillögu að slíkum samningi.
  • Vistfjölskylda þarf að ganga frá sjúkra- og slysatryggingum fyrir þann vistráðna áður en dvöl hefst.
  • Vistfjölskylda þarf að ábyrgjast greiðslu vegna heimferðar viðkomandi að starfstíma loknum.
  • Vilji hinn vistráðni eða vistfjölskylda rifta samningi um vistráðningu þarf að skila inn yfirlýsingu um riftun vistráðningar til Útlendingastofnunar.

Gagnlegar upplýsingar

Var efnið hjálplegt?